Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 16:46:20 (3649)

1997-02-18 16:46:20# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[16:46]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kvaðst ekki hafa fengið svör við sínum spurningum og var ekki ánægður með þau svör sem hann fékk og sérstaklega varðandi forgangsröðunarmálin og spyr að því: Gengur 40 ára sjúklingur fram fyrir 80 ára gamlan sjúkling? Þessu munum við ekki svara hér, hv. þm. Þessu mun læknir ávallt þurfa að svara, hvort þessi sjúklingur fer í aðgerð í dag og annar á morgun. Alþingi mun aldrei svara því. Við setjum hér rammalöggjöf, eins og ég hef svo margsinnis rætt um, en svo nákvæma umfjöllun fær málið aldrei á Alþingi. En eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kom inn á áðan er forgangsröðunarnefnd að vinna á vegum heilbrrn., pólitísk og þverfagleg nefnd þar sem menn eru að stilla upp forgangsröðun almennt. En þegar kemur að því að ákveða aðgerð hjá sjúklingi er það ávallt læknirinn sem tekur ákvörðun um það.