Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 16:47:48 (3650)

1997-02-18 16:47:48# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[16:47]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf auðvitað ekki að segja mér hvernig málin ganga fyrir sig inni á sjúkrahúsum og hvernig ákvarðanir eru þar teknar. Það er hins vegar þannig og það hlýtur hæstv. ráðherra að vita og þekkja að víða í nágrannalöndum okkar hafa einmitt stjórnmálamenn tekist á við álitamál af þessum toga, ekki gagnvart einstaklingum heldur gagnvart almennum reglum. Og ef ég man rétt eru til að mynda í Danmörku tilteknar ákveðnar reglur um þetta, einmitt um þetta álitamál, þetta dæmi sem ég nefndi áðan, um 80 ára gamlan sjúkling, 40 ára gamlan sjúkling, beinaðgerð. Auðvitað þýðir ekkert að hlaupa undan þessu. Ég man ekki betur en það hafi verið eitt af lykilorðum hæstv. ráðherra þegar hún kom hér til skjalanna að hún vildi forgangsraða. Það er þetta almenna blaður sem ég er að gagnrýna, virðulegi forseti, einhver almenn umræða um forgangsröðun. Og svo þegar menn lenda í dæmunum sjálfum þá hlaupa pólitíkusar á braut eins og hæstv. ráðherra núna.