Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:27:33 (3656)

1997-02-18 17:27:33# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt almennt um heilbrigðismál og ekkert óeðlilegt við það. Þetta er stór málaflokkur og víðfeðmur. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði áðan að þetta frv. væri ekki allra meina bót í heilbrigðismálum og ég tek undir það. Það verður aldrei lagt fram frv. sem er allra meina bóta í heilbrigðismálum. En við getum samt gengið áfram veginn í átt til bættrar þjónustu án þess að ganga svo langt.

Hv. þm. gerði Barnaspítala Hringsins að aðalumtalsefni og sagði að framsóknarmenn væru með sífelldar afsakanir varðandi barnaspítalann. Það er alrangt. Við höfum ekkert að afsaka. Við tókum ákvörðun í desember sl. að fara í þessa framkvæmd og unnið er af fullum krafti að framfylgja því. Hvar þetta mál er statt um þessar mundir, þá er verið að undirbúa samkeppni um teikningar á barnaspítala þannig að það er í eins hröðum og góðum gangi og mögulegt er. En hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson verður alltaf svolítið viðkvæmur þegar þetta mál ber á góma. Ég efast ekki um hans einlæga vilja sem fyrrv. heilbrrh. að koma þessari framkvæmd áleiðis. Honum tókst það ekki en ég vona að við í sameiningu, ég og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, sem hefur áhuga fyrir framkvæmdinni, náum því.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom aftur inn á að hann teldi þetta frv. vera til bóta. Ég vona að hann sé heils hugar þegar hann segir það því hann er sá drifkraftur sem getur drifið þetta mál í gegnum þingið. Hann hélt að það væri af minnisleysi sem spurningu hans var ekki svarað. Henni var nú svarað en hann var ekki kominn þegar það gerðist og ég get endurtekið það. Hann spurði um löggildingu á starfssviði sjúkraliða. Ekki búið að taka ákvörðun um það en frv. til laga um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna er tilbúið í ráðuneytinu og það er verið að senda það til umsagna, m.a. til sjúkraliða.

[17:30]

Varðandi þann viðkvæma þátt sem hér hefur margsinnis verið til umfjöllunar um lok lífs og þær leiðbeiningar sem landlæknisembættið hefur gefið, þá var fulltrúi landlæknisembættisins í þeirri nefnd sem samþykkti þetta frv. og þetta er í takt við vilja þess embættis því það er samþykkt af þeim hvernig þessi lagatexti var endanlega saminn.

Varðandi miskabætur vegna læknamistaka þá er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þetta er mjög vandmeðfarið mál og erfitt. Það er þannig að sjúklingar sem verða fyrir miska af völdum lækna geta í dag rekið mál sitt í gegnum svokallaða áfrýjunarnefnd og þurfa ekki að fara í gegnum landlæknisembættið og heilbrrn. Og ég sé að sjúklingar eru í ríkari mæli að leita til þessarar áfrýjunarnefndar.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á ýmsa hluti og talaði m.a. um að tannheilsa barna væri verri í dag en hún hefur verið. Sem betur er þetta ekki rétt. Tannheilsa barna er mun betri í dag en hún hefur verið um langan tíma. Varðandi forgangsröðun sagði hún: Hvað er þessi forgangsröðunarnefnd að gera? Hún er að forgangsraða aðgerðum eftir nauðsyn aðgerða m.a. og forgangsröðun er meira en aðgerðir. Það er líka varðandi framkvæmdir almennt, í hvað röð við eigum að framkvæma í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur líka með forgangsröðun að gera.

Hv. 12. þm. Reykv. kom inn á ýmsa þætti og spurði m.a. að því hvort það væri rétt að félag úti í bæ, eins og hún orðaði það, kæmi að því að greiða sálfræðingi á Barnaspítala Hringsins. Það rétt að því leytinu til að það er samvinnuverkefni milli heilbrrn. og Umhyggju að ráða sálfræðing og það er gert í fullri samvinnu við Umhyggju sem ég býst við að muni síðan nýta sér þekkingu sálfræðingsins varðandi félagasamtök sín.

Ég sé að ljósið er farið að blikka á mig en það væri hægt að hafa mörg fleiri orð um þetta frv. En þetta er nú 1. umr. og mér finnst mikilvægt að þetta frv. fari til heilbr.- og trn. sem allra fyrst. (Forseti hringir.) Ég efa ekki að það sé hægt að gera enn betur en hér er gert og það verður þá gert í umfjöllun nefndarinnar. Ég treysti hv. formanni heilbr.- og trn. til að vinna það af heilum hug.