Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:36:54 (3659)

1997-02-18 17:36:54# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það fæst ekki svar við þessu frekar en fyrri daginn. Þannig hefur í raun ekkert nýtt fjármagn verið tryggt frá því sem var um mitt ár 1994. Þá lá fyrir samþykkt í þáverandi ríkisstjórn um ákveðna fjármögnunaráætlun. Samkomulag við Hringskonur upp á tiltekna upphæð og hærri upphæð en kemur fyrir landið á Vífilsstöðum. Þá lá raunar líka fyrir yfirlýsing frá þáverandi borgarstjórnarmeirihluta um 100 millj. kr. framlag sem síðan gekk því miður ekki eftir hjá nýjum meiri hluta og ég er hryggur vegna þess arna og átti von á öðru frá þessum R-lista sem ég að öðru leyti styð. Þannig að hér hefur auðvitað sáralítið gerst og allt of lítið á þessu tímabili. (Gripið fram í: Sem þingmaðurinn styður örlítið?) --- Styð að öðru leyti, mér fannst þetta hins vegar óheppilegt upphaf hjá R-listanum á sínum tíma en látum vera með það. Þess vegna spyr ég: 120 milljónir? Það er ekki króna á fjárlögum til þessa verkefnis. 120 milljóna kr. von í peningum vegna sölu á landi. Það er auðvitað ekki nema sáralítill hluti af heildardæminu. Því spyr ég beint: Hefur hæstv. ráðherra samþykkt ríkisstjórnar fyrir þessu verki, tímasett í ramma og fjármunum? Hefur hæstv. fjmrh. sagt já? Hann hefur komið í þennan ræðustól vegna ákvarðana sem hann stóð að sjálfur í ársbyrjun 1994 vegna sama máls í þáverandi ríkisstjórn og ekki viljað við það kannast að hann hafi samþykkt það þá. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra viti það og við hér líka hvort hann hafi samþykkt þetta ráðslag og þessa framkvæmd. Ég styð hana heils hugar, hæstv. heilbrrh. og þessa byggingarnefnd, en vil auðvitað sjá málin hreyfast. Og ég hefði talið eðlilegra, og því kalla ég eftir viðhorfum ráðherra til þess, að fleiri kæmu að verki í þessu sambandi og að hún fjölgaði í þessari ágætu byggingarnefnd, kallaði til liðs áhugamenn í hópi stjórnarandstæðinga. Þá er ég handviss um að málin fengju hraðari framgang en ella.