Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:40:35 (3661)

1997-02-18 17:40:35# 121. lþ. 72.9 fundur 163. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:40]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, sem er 163. mál á þskj. 180. Flm. auk þess sem hér stendur er hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,Við 2. mgr. 11. gr. [almannatryggingalaganna] bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu þeir sem notið hafa örorkulífeyris við 67 ára aldur halda öllum réttindum sínum, þar með talinni fjárhæð tekjutryggingar öryrkja, þegar þeir hefja töku ellilífeyris.``

2. gr. hljóðar svo:

,,Við 17. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Fjárhæð tekjutryggingar ellilífeyrisþega, sem fengu greiddan örorkulífeyri við 67 ára aldur, skal ekki lækka við greiðslu ellilífeyris ef tekjur hlutaðeigandi hafa ekki breyst.``

Og síðan 3. gr.:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Ástæðan fyrir því að við leggjum fram þetta frv. er sú að eins og almannatryggingalögin eru í dag þá lækka tekjur, þ.e. almannatryggingagreiðslur, öryrkja við það eitt að hann verður 67 ára. Við það eitt að hann fer af örorkulífeyri yfir á ellilífeyri þá lækka greiðslur til hans. Það getur gerst á fleiri en einn hátt og ætla ég aðeins að reifa það hér í máli mínu.

Ein af skýringunum á því er sú að skerðingarprósenta ellilífeyris samkvæmt 2. mgr. 11. gr. almannatryggingalaganna er 30% en skerðingarprósenta örorkulífeyris er 25%. Þannig skerðist ellilífeyrir meira við almennar tekjur heldur en örorkulífeyririnn, þarna á ég við grunnlífeyrinn. Ef einstaklingurinn er með grunnlífeyri og aðrar tekjur þá skerðist grunnlífeyririnn hans meira eftir að hann er orðinn ellilífeyrisþegi en meðan hann var öryrki. Auk þess hefst skerðing grunnlífeyris ellilífeyrisþega við lægri tekjumörk heldur en grunnlífeyrir örorkulífeyrisþega. Auk þess er samkvæmt núgildandi lögum tekjutrygging öryrkja hærri en tekjutrygging ellilífeyrisþega.

Þegar lögunum var breytt árið 1993 voru gerðar miklar breytingar á almannatryggingalögunum og þeim skipt upp í tvenn lög, almannatryggingalög og lög um félagslega aðstoð. Það var í framhaldi af því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá voru gerðar ýmsar smávægilegar breytingar á lögunum og sú breyting kom þá inn að öryrkjar fengu örlítið hærri tekjutryggingu. Ástæðan fyrir þessu var sú að menn voru sammála um það að öryrki þyrfti meira til framfærslu heldur en ellilífeyrisþegi.

Eins og tölurnar eru núna, þ.e. upphæðir almannatrygginga, þá lækkar tekjutrygging öryrkja í dag um 703 kr. við það að hann verður 67 ára og hefur töku ellilífeyris, í skjalinu stendur 689 kr. en það eru upphæðir frá því fyrir áramót en almannatryggingabætur hækkuðu um 2% um áramótin. Það eitt að öryrkinn verður ellilífeyrisþegi lækkar tekjutrygginguna hans þrátt fyrir það að ekkert segi að framfærslukostnaður öryrkjans minnki eitthvað við það að hann verður eldri. Yfirleitt er það svo að ef fólk hefur búið við fötlun eða hefur kostnað vegna heilsufars síns, þá minnkar hann ekki við það að eldast heldur eykst yfirleitt.

[17:45]

Ástæðan fyrir því að menn voru sammála um að öryrki þyrfti hærri greiðslur var m.a. sú að margir öryrkjar eiga engan rétt í lífeyrissjóðum og aðrir eiga oft mjög lítinn rétt. Mig langar til að minnast á það hér að öryrkjar t.d. sem starfa á vernduðum vinnustöðum greiða ekki í lífeyrissjóð þó svo að auðvitað ætti svo að vera. Þeir ættu auðvitað að greiða í lífeyrissjóð. Mig langar til að nefna það hér að ekki þyrfti nema örlítið meiri fjárveitingu frá hinu opinbera til verndaðra vinnustaða til þess að þeir geti greitt í lífeyrissjóð.

Ég hef einnig upplýsingar um að í verkefni sem unnið var til þess að kanna þessa hluti, undir Helios-verkefninu, að það var skoðað hversu miklu verðmæti verndaðir vinnustaðir skiluðu til ríkisins. Og það kom í ljós að þeir skila meira verðmæti til ríkisins en þeirri upphæð sem framlag ríkisins nemur. Við flutningsmenn þessa frv. teljum því að það sé mjög ósanngjarnt að lækka greiðslur til öryrkja við það eitt að hann verði 67 ára.

Eitt annað mætti líka benda á í þessu sambandi sem reyndar er ekki tekið á í þessu frv. en það eru reglurnar sem gilda um lífeyrisgreiðslur samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. En framreikningur örorkulífeyris samkvæmt þeim samningi leiðir oft til hlutfallslega hærri greiðslna en ellilífeyrisþegar fá með búsetunni einni saman. Því kunna greiðslur að lækka þegar viðkomandi hefur töku ellilífeyris. Þannig fær t.d. einstaklingur sem flytur frá Íslandi við 25 ára aldur, þ.e. flytur til annars EES-lands og verður öryrki þar um þrítugt, greiddan um það bil 33/40 hluta örorkulífeyris frá Íslandi til 67 ára aldurs. Ef hann síðan flyst hingað aftur eftir það fengi hann aðeins 9/40 hluta ellilífeyris. Þó má geta þess að þetta dæmi mun líklega hafa í för með sér að þessi öryrki sem dvelst erlendis mun væntanlega öðlast meiri réttindi til töku ellilífeyris í landinu sem hann flutti til.

Það er ekki tekið á þessu máli hér enda er það stærra en svo að því verði breytt með litlu frv. sem þessu. En það er ástæða til þess að benda á misræmið sem getur skapast við þessar reglur.

Ég vil einnig geta þess að það sem við erum að fara fram á hér, að öryrkinn haldi óbreyttum tekjum eftir að hann er orðinn ellilífeyrisþegi, ætti ekki að vera mikill kostnaðarauki fyrir hið opinbera. Á milli 300 og 400 manns fara frá örorku yfir á ellilífeyri ár hvert. Á síðasta ári voru það 371, árið 1996, þannig að þetta eru ekki stórar upphæðir og ekki mikill fjöldi. En vissulega munar hvern og einn um þessar krónur og ég varð mjög oft vör við það í starfi mínu hjá Tryggingastofnun á sínum tíma að þeir sem lítið höfðu kveinkuðu sér undan því að fá þarna lægri greiðslur eftir að þeir voru orðnir 67 ára. Ég tel því mikilvægt að tekið verði á þessum málum þar til aðrar reglur verða teknar upp um greiðslur lífeyris úr almannatryggingakerfinu. Það er verið að endurskoða almannatryggingalögin en sú endurskoðun gengur hægt fyrir sig. Það er mjög erfitt fyrir öryrkjana að búa við þessar skerðingar. Ég vonast til engu að síður að það verði tekið á þessum málum því þessi hópur býr við mjög óréttláta jaðarskatta vegna mikillar tekjutengingar og hefur hún aukist á síðustu árum og er sífellt að aukast þannig að það er verið að þrengja að þessum hópi ætíð.

Ég vonast til að hæstv. heilbrrh. taki vel í þessa tillögu og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbr.- og trn.