Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 17:59:12 (3668)

1997-02-18 17:59:12# 121. lþ. 72.9 fundur 163. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[17:59]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. 16. þm. Reykv. lifi ekki alveg í sama heimi og við sem erum í nágrenni við fólk sem lifir af slíkum bótum. Ég hef áður getið þess að ég sit í tryggingaráði og er þess vegna allnálægt þessum málum á þessu kjörtímabili.

Ég held að hv. 16. þm. Reykv. geri sér fyllilega ljóst að maður sem lifir á örorkubótum fengi ekki greiðslumat t.d. til að fá húsbréf. Það er óhugsandi þannig að þetta fólk á auðvitað enga kosti. Það lifir mestan part í félagslegu húsnæði af einhverju tagi. Margt af þessu fólki sem verður öryrkjar jafnvel þó það hafi eignast húsnæði, missir það húsnæði vegna þess að það getur ekki hugsanlega staðið undir greiðslum af því. Í tryggingaráði erum við eilíflega að fjalla um vandamál af þessu tagi. Örorkubætur hér í landi eru svo langt undir því sem gerist annars staðar að þær eru hvorki til að lifa eða deyja af og þess vegna hlýtur manni að ofbjóða að heyra menn sem svo sannarlega ættu að vita betur halda því fram að öryrkjar geti staðið í því að koma sér upp húsnæði sem ég skil a.m.k. þannig að sé þá annaðhvort að kaupa eða byggja. Þetta er svo órafjarri raunveruleikanum að það er ekki hægt að sitja þegjandi undir þessu. Raunveruleikinn er ekki svona. Staðreyndin er sú að fólk sem lifir á örorkubótum, jafnvel þótt t.d. bæði hjón njóti slíkra bóta, ræður engan veginn við að framfleyta sér af þeim, hvað þá ef börn eru nú á heimilinu.

Þetta vildi ég bara að kæmi fram, hv. þm. og hæstv. forseti.