Umönnun aldraðra

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:06:55 (3671)

1997-02-18 18:06:55# 121. lþ. 72.10 fundur 201. mál: #A umönnun aldraðra# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:06]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Þáltill. sú sem hér er mælt fyrir lýtur að því að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta semja frumvarp til laga um umönnun aldraðra og þær kröfur og þá ábyrgð sem gerðar eru til þeirra er slíka þjónustu veita. Löggjöfin taki bæði til umönnunar sem fram fer um lengri eða skemmri tíma á sérhæfðum stofnunum sem og til þjónustu sem öldruðum er veitt í heimahúsum af óskyldum aðilum, hvort heldur er opinberum aðilum eða einkaaðilum. Frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþinginu árið 1997.

Þáltill. þessi lýtur að því að tryggja sem best réttarstöðu eldri borgara með því að skilgreina í lagatexta þá þjónustu sem aldraðir eiga rétt á frá þjóðfélaginu sem og að skilgreina skyldur þeirra sem takast á hendur þjónustu við aldraða hvort heldur er á vegum einkaaðila eða opinberra aðila.

Íslenskt þjóðfélag hefur á fáum áratugum breyst á mörgum sviðum samfara breyttri búsetu og atvinnuháttum. Ein afleiðing breytinganna er sú að aðhlynning og hjúkrun aldraðra hefur færst í vaxandi mæli frá ættingjum til opinberra aðila, ýmist sem vistun á öldrunarstofnunum eða sem aðstoð sem veitt er öldruðum í heimahúsum.

Erlendar kannanir sem ég hef kynnt mér og fjalla um viðhorf aldraðra til lífsins og til þess aðbúnaðar sem þeir búa við sýna ótvírætt að það er ósk flestra að geta dvalist sem lengst á eigin heimili þegar aldurinn færist yfir. Vitað er að oft á tíðum þarf gamalt fólk tiltölulega litla hjálp til að geta búið í eigin íbúðum í stað þess að flytjast á öldrunarstofnun. Slík lausn er af flestum talin félagslega æskileg, jafnframt því að vera margfalt ódýrari fyrir samfélagið en vistun á öldrunarstofnunum.

Eftir því sem þeim hluta þjóðarinnar fjölgar sem kemst á eftirlaunaaldur vex þörfin fyrir sérhæfða öldrunarþjónustu og allar líkur eru á að sama þróun eigi sér stað hér og í öðrum löndum þar sem upp hefur vaxið ný atvinnugrein sem sérhæfir sig í að sinna þeim óskum aldraðra sem ekki er komið til móts við af hálfu hins opinbera. Löggjafanum ber að setja lagaramma um slíka starfsemi þar sem tekið sé á þeim skilyrðum sem einkaaðilum og opinberum aðilum sem starfa á þessu sviði beri að uppfylla. Með heildarlöggjöf um umönnun aldraðra væri lagður grunnur að því að þeir sem kaupa öldrunarþjónustu fái þá þjónustu sem þeir máttu vænta og enn fremur stemmt stigu við að slík mál fari í sama farveg og víða erlendis þar sem leit aldraðra að öryggi og sjálfstæðu lífi er gerð að féþúfu óvandaðs fólks, auk þess sem afbrot í tengslum við umönnun aldraðra fara þar vaxandi.

Hér á landi hefur atvinnustarfsemi tengd byggingu svonefndra íbúða fyrir aldraða á vegum einkaaðila blómstrað um skeið enda eftirspurn mikil þótt verð slíkra íbúða þyki oft á tíðum hátt. Vitað er að í hugum sumra sem komið hafa að þessum málum leikur vafi á að aldraðir séu með kaupum á slíkum íbúðum að fá þá þjónustu eða það öryggi í ellinni sem aldraðir halda sig vera að tryggja sér er kaup eru ákveðin. Enginn dómur skal á það lagður hvort slíkar efasemdir eru réttmætar eða hvort það verð sem sett er upp fyrir slíkar íbúðir er í einhverju eðlilegu samhengi við raunverulegan byggingarkostnað eða eðlilegan hagnað byggingaraðila. Hin mikla eftirspurn eftir slíkum íbúðum sýnir hins vegar ljóslega að aldraðir leggja mikið á sig til að geta búið sem lengst á eigin heimili. Og sú ósk okkar allra, ungra sem aldinna, að fá tækifæri til að lifa eðlilegu einkalífi og ráða eigin högum sem lengst ætti að vera öllum ljós.

Þjóðfélagið mun seint geta komið til móts við allar þarfir þessa fjölmenna hóps og þess hóps sem á næstu árum og áratugum telst til eftirlaunaþega og aldraðra og því leikur ekki vafi á að hér á landi, líkt og í mörgum öðrum löndum, verða á allra næstu árum til fjölmörg fyrirtæki sem leitast munu við að koma til móts við þessar þarfir með því að bjóða öldruðum persónulega umönnun, aðstoð og hjúkrun.

Mér vitanlega liggja ekki fyrir aðgengilegar upplýsingar um umfang þeirrar öldrunarþjónustu sem veitt er í heimahúsum af einkaaðilum hér á landi eða hver sé álitin líkleg þróun slíkrar starfsemi hér á næstu árum. Í gögnum sem ég hef séð frá atvinnumálaráðuneyti í Bandaríkjunum er hins vegar áætlað að heimahjúkrun og persónuleg þjónusta í heimahúsum séu þær tvær atvinnugreinar sem vaxa munu hraðast þar í landi á árunum 1994--2005. Samkvæmt þessum áætlunum mun heimahjúkrun aukast um 120% á þessu tíu ára tímabili og aðstoð í heimahúsum án hjúkrunar er talin munu aukast um 83%. Til samanburðar og af því við lifum nú á tölvuöld þá er álitið að tölvu- og hugbúnaðariðnaður aukist aðeins á þessum tíma um 70% og lendi í fimmta sæti. Ég sé ekki ástæðu til að ætla annað en að þróunin hér á landi verði að einhverju leyti svipuð og í Bandaríkjunum, a.m.k. sýnir reynslan það að flestar þær þjóðfélagsbreytingar sem eiga upphaf sitt í Bandaríkjunum leggja fyrr eða síðar leið sína til Íslands.

Í Bandaríkjunum eru starfandi samtök um heimaaðhlynningu er nefnast National Association for Home Care og áætla þau samtök að þar í landi njóti nú 7 milljónir manna aðhlynningar í heimahúsi á vegum óskyldra aðila og á árabilinu 1985--1994 hefur þeim fyrirtækjum sem veita slíka þjónustu fjölgað úr 6.000 í 17.000. Opinbera sjúkratryggingakerfið þar í landi sem heitir Medicare greiddi á árinu 1996 fyrir þá heimahjúkrun sem 3,9 milljónir manna af framangreindum 7 milljónum manna nutu, en sá fjöldi hefur aukist um 2 milljónir einstaklinga á einungis sex árum. Á sama tímabili hafa greiðslur hins opinbera vegna þessarar þjónustu aukist úr 4 milljörðum Bandaríkjadala í 18 milljarða dollara.

Sami aðili og ég vitnaði til áðan, National Association for Home Care, hefur látið frá sér fara tölulegar upplýsingar um það hvaða aðilar það eru sem kaupa aðhlynningu í heimahúsum, ekki aðeins aldraðir heldur þeir sem kaupa aðhlynningu í heimahúsum. Og samkvæmt þeim tölum þá eru 67% þeirra sem kaupa slíka þjónustu konur en 33% karlar. 72% kaupenda eru 65 ára eða eldri, 15% eru á aldrinum 45 ára til 64 ára en 13% þeirra sem fá aðhlynningu í heimahúsi eru undir 45 ára aldri.

Aðhlynningin skiptist þannig eftir umfangi þjónustu að 4% fá stöðuga umönnun allan sólarhringinn, 32% fá aðstoð oftar en þrisvar í viku, 41% fá aðstoð tvisvar til þrisvar í viku og 23% einu sinni í viku.

Reynslan frá Bandaríkjunum sýnir að það getur verið erfitt að henda reiður á því hver sé kostnaðarskipting á þeirri aðhlynningu sem veitt er í heimahúsum og stafar þetta af því að fjölmargt eldra fólk semur oft beint við einstaklinga um að veita slíka þjónustu með það að markmiði að spara sér að greiða launatengd gjöld. Ég held ég megi segja hins vegar að í Danmörku taki skattkerfið tillit til þessa með því að það hafi verið skilgreind sérstök atvinnugrein, svonefnd persónuleg þjónusta, sem sé frádráttarbær frá tekjum þeirra sem hana kaupa og ekki sé krafist greiðslu launatengdra gjalda af slíkri vinnu. Ég er ekki alveg viss um að þetta hafi komist á en þetta var mikið til umfjöllunar þar í landi fyrir nokkrum árum. Og ég er sannfærður um að slík breyting á skattalögum hér á landi mundi spara hinu opinbera miklar fjárhæðir þar sem fleiri ellilífeyrisþegar hefðu þá ráð á því að kaupa sér þá þjónustu sem þeir fá ekki frá hinu opinbera en vildu gjarnan fá.

[18:15]

Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum um þá ellilífeyrisþega sem fá þjónustu fyrir tilstilli viðurkenndra fyrirtækja á því sviði að þjónusta eldra fólk, þá er skipting þess kostnaðar, þ.e. hver greiðir kostnaðinn af þessari þjónustu, þannig að opinberar sjúkratryggingar þar í landi greiða 42% af þjónustunni, félagsleg aðstoð greiðir 16%, sjálfstæð tryggingafélög greiða 13%, notandi þjónustunnar greiðir sjálfur 23% og aðrir aðilar, oftast ættingjar, greiða 6%. Í Bandaríkjunum þar sem hefur verið hvað örust þróun frá vistun á stofnunum og yfir til þeirrar viðleitni eldri borgara að vilja búa sem lengst í eigin húsum er nú talið að brýn þörf sé á samræmdri löggjöf um þjónustu þá sem öldruðum er veitt. Reynslan þar sýnir að með viðleitni eldri borgara til að komast hjá því að flytjast á elliheimili hefur opnast leið fyrir óheiðarlegt fólk til að féfletta þá er öldrunarþjónustu kaupa. Verði þáltill. sú sem hér er flutt samþykkt yrði samið frv. til laga um þjónustu utanaðkomandi aðila við aldraða en núverandi löggjöf tekur ekki til umönnunar í heimahúsum með beinum hætti þó víða sé í löggjöfinni að finna ákvæði sem snerta þau mál sem upp geta komið á þessu sviði. Í skjóli þess að ekki er um að ræða opinbert eftirlit með starfsemi þjónustuaðila eða samræmingu á þeim kröfum sem gera ber til þjónustunnar hafa erlendis komið upp mörg erfið og leiðinleg mál þar sem eldri borgarar verða fyrir barðinu á sviksömu og óvönduðu fólki. Engin trygging er fyrir því að slíkt hendi ekki einnig hér á landi verði sama þróunin og erlendis að umönnun aldraðra verði skipulögð atvinnustarfsemi. Það sorglega er að aldraðir sem hleypa utanaðkomandi fólki inn á heimili sín til aðstoðar gera slíkt í þeirri von að geta með því móti komist hjá að lenda á elliheimili. Reynslan sýnir að í mörgum tilvikum láta hinir eldri ekki ættingja eða yfirvöld vita verði þeir fyrir barðinu á óheiðarlegum umönnunaraðilum af ótta við að lenda þá á elliheimili eða vera einfaldlega taldir of gamlir til að gæta sín sjálfir. Athuganir í Bandaríkjunum sýna að í 80% tilvika segja þolendur ekki frá slíkum brotum. Í rannsókn sem gerð var í 150 tilvikum þar sem aldraðir urðu fyrir barðinu á óheiðarlegu fólki sem hleypt hafði verið inn á heimili til að annast þann sem þar bjó, þá kemur í ljós að af þessum 150 tilvikum kom þjófnaður fyrir í 110 tilvikum. Ofbeldi og kynferðisleg áreitni átti sér stað í 29 tilvikum og hrein vanhirða í 23 tilvikum. Samtalan sýnir okkur að í 12 tilvikum hefur þolandinn orðið fyrir fleiri en einni tegund brota á sama tíma. Í 94% af þessum brotum þá var hinn brotlegi ófaglærður aðstoðarmaður en í 6% tilvika var um faglært hjúkrunarfólk að ræða.

Af þeim sem í Bandaríkjunum veita heimilisaðstoð við eldra fólk eru 10% karlar en um 90% eru konur. Karlar eru hins vegar viðriðnir 23% af afbrotunum en konur 77%. Sem betur fer eru fá dæmi um slík brot á Íslandi gagnvart eldri borgurum þótt vissulega hafi komi upp tilvik sem eru erfið. Það er engu að síður trú mín að nauðsyn sé á að löggjafinn setji starfsemi sem byggist á umönnun aldraðra fastar skorður án þess að komið sé í veg fyrir að slík þjónusta fái að þróast með eðlilegum hætti. Með setningu löggjafar um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem veita alhliða öldrunarþjónustu væri tryggt að aldraðir fái notið góðrar og ábyrgrar umönnunar í ellinni jafnt á stofnunum og á einkaheimilum. Með setningu heildarlöggjafar um umönnun aldraðra væri dregið úr líkum á því að það sama henti hér á landi og gerst hefur í Bandaríkjunum þar sem þeir þegnar þjóðfélagsins sem eru hvað varnarlausastir verða oft fyrir barðinu á óheiðarlegu fólki sem fær aðgang að heimilum viðkomandi fólks undir yfirskini hjálpar og aðhlynningar.

Ég tel enn fremur nauðsynlegt að settar verði reglur sem tryggi að aldraðir sem dveljast á öldrunarheimilum fái búið við þá virðingu og haldi þeirri persónulegu reisn sem aldraðir eiga skilið að veitt sé af því þjóðfélagi sem hinir öldruðu hafa tekið þátt í að byggja upp af eljusemi og umhyggju fyrir komandi kynslóðum. Uppbygging þeirra staða sem taka að sér umönnun aldraðra sem og viðmót starfsfólks gagnvart þeim er þjónustunnar njóta er ekki í lagi nema sá andi sé ríkjandi að um sé að ræða heimili viðkomandi fólks en ekki vistunarstað þar sem einungis sé verið að bíða eftir að viðkomandi hverfi til vistar hjá æðri máttarvöldum. Okkur sem störfum á Alþingi ber siðferðileg skylda til að standa vörð um hag aldraðra samborgara okkar sem eiga að baki langa starfsævi við að byggja upp það þjóðfélag sem við njótum góðs af í dag. Þetta mál sem hér er lagt fram mætti gjarnan vinna frekar undir kjörorðunum glæðum árin lífi.