Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:35:56 (3676)

1997-02-18 18:35:56# 121. lþ. 72.11 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., Flm. TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:35]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég skal með ánægju verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að hafa ræðu mína eins stutta og mögulegt er.

Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á biðlistum í heilbrigðisþjónustu. Eins og kunnugt er hafa myndast alllangir biðlistar hjá ýmsum sviðum sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. Þessir biðlistar eru mislangir eftir þjónustusviðum. Lengstir eru þeir raunar á bæklunardeildum. Alls voru á árinu 1996 um 1.260 á biðlista á bæklunardeildum og einnig eru margir á biðlistum á háls-, nef- og eyrnadeildum eða á síðasta ári rúmlega þúsund manns. Alls eru á biðlistunum á sl. ári rúmlega 3.000 manns ef endurhæfing og lýtalækningar eru ekki með taldar en heildarbiðlistarnir að endurhæfingu og lýtalækningum meðtöldum eru á fimmta þúsund.

Biðlistarnir skapa að sjálfsögðu þeim sem á þeim eru mikil vandræði og eru sérstakt heilbrigðisvandamál út af fyrir sig en þeir skapa einnig ýmiss konar vandamál utan þeirra sem flokkast undir þjáningar og vandræði sjúklinganna sjálfra. Fjárhagslegur kostnaður er mikill og deilist að sjálfsögðu á sjúklingana, á fjölskyldur þeirra, á vinnuveitendur og á hið opinbera. Á sama tíma og þessir biðlistar hafa verið að myndast hefur sú þróun orðið að dregið hefur verulega úr sérhæfðri þjónustu á smærri sjúkrahúsum raunar víðast hvar á landinu. Ástæður fyrir þessari þróun eru margvíslegar en helst er þó að nefna öra tækniþróun, stóraukna sérhæfingu á öllum sviðum læknisfræði og heilbrigðisþjónustu. En um leið og þessi sérhæfing hefur aukist hefur meðferðarmöguleikum líka fjölgað allhratt.

Smærri sjúkrahúsin á landsbyggðinni eiga af þessum sökum talsvert í vök að verjast í heilbrigðiskerfinu og er því full ástæða til þess að skoða gaumgæfilega að hve miklu leyti mætti hugsanlega nýta þá aðstöðu sem fyrir hendi er utan höfuðborgarsvæðisins til að stytta umrædda biðlista. Ef það tækist þá mætti að sjálfsögðu leysa þau vandamál sem biðlistunum fylgja, en það gæti einnig orðið til þess að styrkja heilbrigðisþjónustuna utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég vil geta þess að eftir að þessi þáltill. var lögð fram á þinginu, þá ákvað fjárln. Alþingis sérstaka fjárveitingu til Sjúkrahússins á Akranesi beinlínis í þeim tilgangi að stytta biðlista. Utan höfuðborgarsvæðisins starfa raunar tvö sérgreinasjúkrahús sem geta væntanlega tekið þátt í því verkefni að stytta biðlistana, en auk þess er ekki loku fyrir það skotið að fleiri sjúkrastofnanir gætu átt hlut að þessu máli.

Svo ég nefni sérstaklega Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þá rekur það allmargar sérgreinadeildir og þar fara m.a. fram þvagfæraskurðlækningar og háls-, nef- og eyrnalækningar. Biðlistarnir þar eru allmiklir og þess er ekki getið í yfirliti sem landlæknir hefur gefið um biðlistana að slíkir biðlistar séu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, það er ekki á skrá yfir slíka þjónustu. Þessa þjónustu mætti örugglega nýta til þess að stytta biðlistana og mér er kunnugt um það að á bæklunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er verið að sinna sjúklingum af Reykjavíkursvæðinu, sjúklingarnir kjósa beinlínis að fara norður til þess að komast af þessum biðlistum og fá þjónustu. Ég held því að hér sé verkefni sem væri full ástæða til þess að láta skoða ítarlega og tel að sú greinargerð sem fylgir þessari till. til þál. varpi nokkru ljósi á eðli málsins.

Í lok máls míns vil ég taka fram að það er mjög hæpið af öryggisástæðum að byggja sérgreinaþjónustu upp á einum stað á landinu eins og nú er tilhneiging til. Íslendingar vita það af sárri reynslu að náttúruhamfarir á landinu eru næsta óútreiknanlegar eins og náttúruhamfarir eru alla jafnan og ekki er ráðlegt að setja öll eggin í eina og sömu körfuna í sjúkrahúsmálum og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu frekar en í öðrum málum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að eftir fyrri umr. verði þessari till. til þál. vísað til síðari umræðu og til hv. heilbrn.