Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:42:52 (3677)

1997-02-18 18:42:52# 121. lþ. 72.11 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mér finnst þessi þáltill. frá sex hv. þingmönnum Sjálfstfl. bera vott um það að þessir hv. þingmenn hafa ekki fylgst fyllilega með því sem verið hefur að gerast á þinginu í vetur, því fyrr á þinginu var lögð fram beiðni um skýrslu frá heilbrrh. um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum. Beiðnin kom frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þeirri sem hér stendur og fleiri þingmönnum jafnaðarmanna. Þar er óskað eftir öllum þeim upplýsingum sem farið er fram á í þessari þáltill. að aflað verði. Ég get nefnt sem dæmi að það er farið fram á upplýsingar um þróun biðlista eftir læknisaðgerðum innan og utan sjúkrahúsa, hvaða áhrif sumarlokanir sjúkrahúsa hafa á biðlista, hver eru skilgreind öryggismörk um hámarksbið eftir aðgerðum, hver má áætla að séu útgjöld ríkis og sveitarfélaga á ári af heimaþjónustu og heimahjúkrun, læknismeðferð og lyfjum og vistunarplássum fyrir sjúklinga sem bíða eftir aðgerðum, helstu áhrif biða eftir aðgerð o.s.frv. Ég ætla ekki að lengja það með því að nefna það, en það er nákvæmlega það sem verið er að biðja um í þessari þáltill.

Ég vil líka að það komi fram hér að þessa vinnu er búið að vinna í heilbrrn. og samkvæmt upplýsingum frá heilbrrn. er von á svörum nú á næstu dögum við þeim spurningum sem koma fram í beiðni um þessa skýrslu þannig að ég get ekki séð annað en að búið sé að vinna það verkefni sem farið er fram á að verði unnið samkvæmt þessari þáltill. og þess vegna sé þessi þáltill. óþörf. Ég held að menn ættu bara að fagna því að það sé búið að vinna vinnuna þannig að það á ekki að þurfa að fara í frekari vinnu og hafa fleiri orð um það.