Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:45:04 (3678)

1997-02-18 18:45:04# 121. lþ. 72.11 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., Flm. TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:45]

Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram ræðu hv. þm. Ástu Jóhannesdóttur, 18. þm. Reykv., að hér í þinginu er mál sem er efnislega skylt því sem ég mæli fyrir. Það kom hins vegar einnig fram að málin eru ekki sambærileg og munar miklu því þar sem annað þingmálið biður fyrst og fremst um upplýsingar þá er hér verið að rekja hvernig hægt væri að leysa hluta af vandanum og það sérstaklega með því að virkja betur sjúkrastofnanir úti á landi. Það hefur komið fram, m.a. við umfjöllun í fjárln., að aðilar frá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík voru spurðir að því hvort þessi vandi biðlistanna væri leysanlegur að einhverju leyti utan höfuðborgarsvæðisins. Svar við því var það að um 60--70% af þessum vandamálum væri ekki hægt að leysa annars staðar en í Reykjavík. Þar með má gagnálykta að 30--40% megi leysa annars staðar og það er mjög mikilsvert að afla upplýsinga um það að hve miklu leyti hægt er að stytta þessa biðlista með því að nýta betur þá þjónustu sem er annars staðar á landinu. Þess vegna held ég að við hv. 18. þm. Reykv. ættum að geta sameinast um að þessar tillögur eru ekki efnislega samhljóða og sú tillaga sem hér er um að ræða á fyllilega rétt á sér.