Tilkynningarskylda olíuskipa

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 19:12:05 (3684)

1997-02-18 19:12:05# 121. lþ. 72.14 fundur 303. mál: #A tilkynningarskylda olíuskipa# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[19:12]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari umræðu, en tímans vegna veit ég að við ætlum bæði að halda það sem virðulegur forseti óskaði eftir. En aðeins örstutt um þetta.

Það dæmi, sem ekki er mjög gamalt, er þegar danskt flutningaskip strandaði við Breiðdalsvík fulllestað af saltfarmi. Þar er laxveiðiá og menn höfðu nokkrar áhyggjur af hvað mundi gerast. En það gekk ekki betur en svo að það tók nokkra daga að taka ákvörðun um hver ætti að hafa framkvæmdarvaldið. Það er vandamálið. Það er annars vegar Siglingamálastofnun, sem fer með hluta af málinu, það er Landhelgisgæslan sem fer hluta, og það eru Mengunarvarnir ríkisins. Ég held ég hafi talið þá flesta upp sem þarna koma við sögu. En það kemur greinilega fram í öllum þeim umsögnum sem berast að menn bíða eftir því að það sé einhver aðili sem hafi með málið að gera, enda kemur í ljós að þessir aðilar, Siglingamálastofnun og þeir aðilar fagna þessari þáltill. og treysta því að að henni verði unnið fljótt og vel svo betri starfsgrundvöllur verði vegna þessa máls.

Það er ekkert langt síðan menn töluðu um mengun í Ell\-iðaánum. Menn töluðu þar um einhverja kýlapest í laxi sem geisaði þar. Henni er nú lokið væntanlega. En í Kanada og í Noregi hafa verið sett lög sem banna skipum að dæla úr ballesttönkum. Það er sjór sem menn eru að nota til þess að þyngja skipin niður ef ekki er farmur um borð í skipinu. Það eru ákvæði um það í þessum löndum að ballestinni skuli dælt út í ákveðinni fjarlægð frá landi við ákveðið dýpi vegna þess að þau óttast einmitt að fiskur sem er viðkvæmur eins og t.d. lax skaðist og ég tala nú ekki um hér við suðurströndina, á uppeldisstöðvum þorsks, að þetta geti valdið mikilli mengun og tjóni.