Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:35:54 (3692)

1997-02-19 13:35:54# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:35]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 29. febrúar 1988 um könnun á kostnaði við að lýsa upp Suðurlandsveg frá Reykjavík um Hellisheiði að Hveragerði?

Hefur verið leitað leiða til að framkvæma verkið, svo sem boðið er í ályktuninni?``

Svar vegamálastjóra er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áður en spurningunum er svarað beint er rétt að fara nokkrum orðum um lýsingu vega almennt. Einungis örfáir vegarkaflar eru upplýstir hér á landi. Í öllum tilvikum hefur Alþingi veitt fé til slíkra verkefna og þau sérstaklega tiltekin í vegáætlun. Geta má þess að í nálægum löndum heyrir það einnig til undantekninga að vegir í strjálbýli séu upplýstir. Erum við að þessu leyti á sama báti og nágrannaþjóðir okkar.

Mikil umræða hefur gjarnan farið á undan ákvörðunum um lýsingu einstakra vegarkafla, nú síðast þegar ákvörðun var tekin um lýsingu Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Leifsstöð. Það verkefni var að mestu leyti unnið á síðasta hausti, 1996, og því verður lokið í ár.

Á Reykjanesbraut er mjög stór hluti skráðra umferðar\-óhappa í því fólginn að bílum er ekið út af vegi, 40--50%. Veruleg hætta er á að hluti þeirra bíla aki á ljósastaurana á leið sinni út af veginum og lýsingin dragi þá ekki úr slysahættu í sama mæli og að er stefnt. Hér eru raunar komin helstu rök gegn lýsingu á þjóðvegum í strjálbýli ásamt því að kostnaður við lýsingu er mikill. Væri eðlilegt að öryggisúttekt færi fram á viðkomandi vegarköflum áður en ákvörðun er tekin um ráðstöfun mikilla fjármuna til eins þáttar sem snertir öryggi vegfarenda.

Til að draga úr hættu vegna ákeyrslu á staura var ný tegund staura keypt á Reykjanesbrautina. Þessir staurar eiga að ganga í sundur við ákeyrslu og eru því ekki eins hættulegir og eldri gerðir. Á móti eru þeir töluvert dýrari. Ekki er enn komin nein sú reynsla af lýsingu á Reykjanesbraut né þessari tegund nýrra staura þannig að draga megi af henni ályktun um þróun slysatíðni eða alvarleika slysa við ákeyrslu á staura. Ég hygg að þrívegis hafi komið fyrir að ekið hafi verið á ljósastaura við Reykjanesbraut.

Verður þá vikið að fyrirspurninni. Áætlanir um kostnað við lýsingu á Suðurlandsvegi hafa verið gerðar. Nú háttar svo til á þessum vegarkafla að útafkeyrslur eru þar stór hluti óhappa eins og Reykjanesbraut. Er því varlegra að reikna með að hin nýja tegund ljósastaura yrði einnig notuð á Suðurlandsvegi. Kostnaðaráætlun hefur því verið endurskoðuð með tilliti til fenginnar reynslu af Reykjanesbraut. Alls er kaflinn frá Reykjavík að Hveragerði um 35 km og er kostnaður við að lýsa hann áætlaður um 200 millj. kr. Kostnaður við rekstur og viðhald er metinn á 6--7 millj. kr. á ári.

Eins og áður var vikið að hefur lýsing einstakra vega og/eða vegarkafla verið fjármögnuð af því fé á vegáætlun sem komið hefur í hlut viðkomandi kjördæmis. Í raun hafa þingmenn þess kjördæmis gert tillögu um lýsingarverkefnið og hún síðan samþykkt á Alþingi. Ekki er efni til að hafa annan hátt á um það verkefni sem hér um ræðir nema Alþingi móti þá stefnu að lýsingarverkefnið skuli fjármagnað með sérstökum hætti.

Að lokum má benda á að æskilegt væri að nokkur reynsla fáist af lýsingu á Reykjanesbraut áður en ráðist er í ný stórverkefni á þessu sviði.``

Svo mörg voru þau orð vegamálastjóra.

Ég vil bæta því hér við að eins og hv. þingmönnum er kunnugt er skólaakstur um allar sveitir, börn koma út að vegum og þar sem umferð er þung og mikil, og það er víðar heldur en á leiðinni til Hveragerðis og kannski færri skólabörn þar en sums staðar annars staðar, hafa verið uppi kröfur um það að lýsa upp vegina um þéttbýlar sveitir til þess að skólabörn verði síðar í hættu þegar þau fara yfir veginn, bíða skólabílsins og þar fram eftir götunum. Eins vil ég benda á að víða um land háttar svo til að töluvert er um hestamenn á þjóðvegum eða við þjóðvegi og það hafa einnig komið fram kröfur um það að lýsingar verði settar upp til þess að draga úr slysum af því tagi.

Í þriðja lagi hefur verið rætt um það mjög mikið hér á Alþingi hvaða hætta stafar af einbreiðum brúm og svaraði ég fyrirspurn um það mál á síðasta þingi þannig að það er að ýmsu að hyggja og ugglaust erfitt að koma í veg fyrir öll slys. Ég tel persónulega að ekki sé komin tími til þess að lýsa upp veginn yfir Hellisheiði, það séu önnur verkefni brýnni eins og nú stendur á.