Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:41:00 (3693)

1997-02-19 13:41:00# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:41]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég hlýt að undrast svör hæstv. ráðherra á sama hátt og ég undraðist þegar ég las Morgunblaðið 15. þessa mánaðar þar sem hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, skrifar grein sem heitir Raflýsing austur fyrir fjall er forgangsverkefni, og gefur í skyn að þingmenn Sunnlendinga séu að kanna þetta mál og ekki síst þingmenn Sjálfstfl.

Eins og hér hefur verið minnst á, þá hefur Alþingi talað í þessu máli. Hv. þáv. þm., Eggert Haukdal, flutti um þetta þáltill. sem var samþykkt. Það gerðist 28. febrúar 1988. Og hver var þá forsætisráðherra þjóðarinnar? Það var raunar 1. þm. Suðurl. Ég hlýt því að spyrja ráðherra: Hefur ályktun Alþingis ekkert að segja í þessu máli? Á að hunsa hana áfram eða skyldi vera eitthvert samhengi þar á milli hver flutti tillöguna hér fyrr á tíð?