Lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:46:16 (3696)

1997-02-19 13:46:16# 121. lþ. 73.1 fundur 283. mál: #A lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:46]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil segja það við hv. 5. þm. Vestf. að erfitt er að bera Óshlíðina saman við aðra vegi hér á landi, þar sem Óshlíðin er hættulegasti vegur sem liggur á milli tveggja kaupstaða og eftir að göngin komu í Múlanum orðinn hættulegri vegur en Múlavegur og raunar hættulegri en aðrir vegir fyrir vestan þannig að það er ekkert endilega hliðstætt við aðstæður annars staðar á landinu. En það hefur verið ráðist í margvíslegar öryggisráðstafanir einmitt á Óshlíðarvegi sem við höfum ekki treyst okkur til að ráðast í annars staðar og skal ég ekki fara nánar út í það hér, en kýs þó að bera saman þessa tvo vegi, til Ólafsfjarðar og Bolungarvíkur. Við getum líka tekið veginn til Súðavíkur eða til Flateyrar í þessum samanburði og við vitum að Óshlíðin er þar alveg sér á parti.

Í sambandi við málið almennt vil ég segja það að Þjórsárbrúin er sá staður á Suðurlandi sem ýmsir horfa mjög til. Það er sú brú þar sem næstflest slys hafa orðið á undanförnum árum næst á eftir Botnsánni í Hvalfirði. Ég vil líka segja það að ég átta mig ekki alveg á því hvaða rök eru fyrir því að brýnna sé að lýsa Hellisheiði heldur en t.d. leiðina frá Hveragerði til Selfoss ef við tökum inn í dæmið þá umferð skólafólks og barna sem er einmitt á þeim slóðum, þá byggð sem þar er við veginn. Ég hygg að þetta mál sé ekki einfalt, við verðum að reyna að velja og hafna og það sé á ýmislegt að líta þegar við erum að hugsa um öryggismál umferðarinnar.