Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:52:07 (3698)

1997-02-19 13:52:07# 121. lþ. 73.2 fundur 318. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:52]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því við Flugleiðir að fá upplýsingar um þau atriði sem hér er spurt um og segir í bréfi frá Flugleiðum um þessi atriði:

,,Bolungarvík. Samningur við Guðmund Hafstein Kristjánsson sérleyfishafa. Föst greiðsla 3.000 kr. á ferð en það eru tíu ferðir í viku. Kostnaður um 123 þús. kr. á mánuði fyrir fólksflutninga en innifalinn í þessari greiðslu er flutningar og frakt.

Djúpivogur. Samningur við Hjört Ásgeirsson. Föst greiðsla 116.500 kr. á mánuði fyrir fólksflutninga en aukalega er greitt fyrir frakt sem er um 14 þús. kr. á mánuði. Keyrir fimm ferðir í viku.

Höfn. Samningur við Austurleið um keyrslu frá Hornafirði á flugvöllinn. Föst greiðsla 876 kr. á ferð, samtals kostnaður á mánuði 32 þús. kr. Keyrir í öll flug.

Norðfjörður. Samningur við Austfjarðaleið ehf. sem er í eigu Hlífars Þorsteinssonar um keyrslu milli Egilsstaða, Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Neskaupstaðar níu sinnum í viku. Föst greiðsla á mánuði 62.500 kr. fyrir fólksflutninga og aukalega greitt fyrir frakt 50 þús. á mánuði.

Húsavík. Um áramótin 1994--1995 var samningi sagt upp við Björn Sigurðsson sérleyfishafa um akstur á milli Húsavíkur og Aðaldalsflugvallar. Samningurinn var um fasta greiðslu á hverja ferð, 2.100 kr. en keyrt var í öll flug Flugleiða hf. sem voru um sjö flug í viku. Ástæða uppsagnar var endurskipulagning á starfsemi Flugleiða á Húsavík sem fólst í uppsögn umboðsmanna og ráðningu starfsfólks. Í framhaldi af þessu var samið við Björn um að sjá um vöruafgreiðslu Flugleiða á Húsavík og akstur á vörum til og frá Aðaldalsflugvelli. Um mitt ár 1996 óskaði Björn eftir breytingum á samningi sem varð til þess að Flugleiðir tóku aftur yfir alla starfsemi vöruafgreiðslu.

Kostnaður Flugleiða hf. innan lands vegna rútusamninga á þessum stöðum sem getið var hér að ofan er 334 þús. kr. á mánuði sem er föst greiðsla til viðkomandi aðila. Samningum var sagt upp í nóvember 1996 og tekur uppsögnin gildi 1. mars 1997.``

Í svari Pósts og síma segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Póstur og sími hf. hefur haft til umsagnar fyrirspurn frá Alþingi um almenningssamgöngur á landsbyggðinni, þ.e. þann hluta fyrirspurnarinnar sem snýr að Pósti og síma hf. og varðar breytingar á póstsamgöngum og uppsögnum samninga við sérleyfishafa í kjölfar þeirra. Af hálfu Pósts og síma hf. hefur verið markvisst unnið að því á undanförnum árum að hagræða á sem flestum sviðum og jafnframt að koma í vaxandi mæli til móts við þarfir viðskiptavina, jafnt innlendra fyrirtækja sem erlendra póststjórna um aukin gæði. Einn liður í þessu hefur verið næturakstur frá Reykjavík til Akureyrar og frá Reykjavík til Egilsstaða.

Næturakstur til Akureyrar hófst í júní 1992 og var bylting í póstsamgöngum á þeim tíma. Reynslan af þeim akstri hefur verið mjög góð og hefur leitt til þess að nú fá allir íbúar þéttbýlisstaða á þessari leið bréf sín í hendur á fyrsta virka degi eftir að þau eru póstlögð. Póstmagn á þessari leið hefur tvöfaldast í kjölfarið.

Í júlímánuði 1995 var hafinn tilraunaakstur að næturlagi frá Reykjavík til Egilsstaða. Reynslan af þeim akstri hefur öll verið á sömu lund og akstur til Akureyrar, þ.e. að gæði þjónustunnar hafa aukist verulega, starfsumhverfi starfsfólks hefur einnig batnað því að póstur berst nú fyrir opnunartíma pósthúsanna og póstmagn hefur aukist. Því var þessi akstur boðinn út á miðju ári 1996 og hóf nýr verktaki störf þann 1. des. sl.

Með næturakstrinum og breytingum honum tengdum verða samningar við sérleyfishafa sem áður sá um þessa flutninga óþarfir og því er nú verið að segja upp þessum samningum. Póstur og sími hf. er fyrirtæki á sviði flutningastarfsemi og reynir því eftir föngum að halda kostnaði niðri. Ekki er séð að fyrirtækinu sé ætlað að tryggja almenningssamgöngur á landsbyggðinni en hins vegar mun Póstur og sími hf. hér eftir sem hingað til nýta sér samvinnu við sérleyfishafa á þeim flutningsleiðum þar sem hagsmunir sérleyfishafa og póstþjónustunnar um áætlanir og ferðatíðni fer saman.``

Í svari frá skipulagsnefnd fólksflutninga segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Skipulagsnefnd fólksflutninga hefur lítillega rætt afleiðingar uppsagna Pósts og síma og samninga við sérleyfishafa en ekki ályktað sérstaklega um málið. Uppsagnir Flugleiða eru nýtilkomnar og hafa ekki enn verið ræddar í nefndinni. Fulltrúi sérleyfishafa í nefndinni hefur nokkrum sinnum borið málið upp og lýst áhyggjum sínum vegna þess og hefur það verið fært til bókar. Hefur hann sérstaklega bent á að hætta væri á að áætlunarferðir legðust af á fáfarnari leiðum þar sem póstflutningar hafa skapað jafnvel mestan hluta tekna viðkomandi.

Það er ljóst að sérleyfisakstur á undir högg að sækja. Farþegum hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Íslendingar ferðast minna og minna með áætlunarferðum en ferðamenn yfir sumartímann hafa víða haldið þessu mikið uppi.

Það má segja að sérleyfisakstur sé styrktur á tvennan hátt í dag. Í fyrsta lagi eru sérleyfishafar verndaðir gegn beinni samkeppni. Í öðru lagi fá þeir endurgreiddan hluta þungaskatts. Endurgreiðslan hefur miðast við 15 tonna gjald en flestir leyfishafar, sérstaklega þeir minni, aka með minni bíla en það. Ríkisskattstjóri hefur nú ákveðið að breyta endurgreiðsluforminu þannig að þessir aðilar fá endurgreitt í samræmi við þá bíla sem notaðir eru hverju sinni. Þetta þýðir skerðingu hjá flestum.`` (Forseti hringir.)

Ég bið afsökunar á því að hafa ekki lokið svari mínu, en mun gera það í síðari ræðu minni.