Almenningssamgöngur á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 13:58:59 (3700)

1997-02-19 13:58:59# 121. lþ. 73.2 fundur 318. mál: #A almenningssamgöngur á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[13:58]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að hreyfa mikilvægu máli. Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að ríkisvaldið hefur verið æðiafskiptalaust þegar kemur að þessum mikilvæga þætti, almenningssamgöngum, bæði í þéttbýli og dreifbýli og gerir lítt annað en að skattleggja þennan mikilvæga þátt samgangna.

Ég vil hins vegar gera alvarlegar athugasemdir við þau svör sem okkur er boðið hér upp á. Í fyrsta lagi heyrðist ekki í ráðherranum, hann muldraði hér ofan í barm sér. Í annan stað hefur hann greinilega farið í nám í hraðlestri því að það var ekki að skilja nema annað hvert orð sem frá honum kom. Og í þriðja lagi kom ekkert aukatekið orð frá honum sjálfum. Hann las hér yfirlýsingar fyrirtækja á borð við Flugleiðir og hlutafélagið Póst og síma en lagði ekkert mat á það sjálfur. En ég hafði haldið, virðulegi forseti, að tilgangur þessara orðræðna milli þingmanna og ráðherra væri fólginn í því að fá álit þeirra og samandregnar upplýsingar sem þeir afla en ekki að lesa hér bréf eða pappíra frá fyrirtækjum eða mönnum úti í bæ.