Vatnsorka utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:11:10 (3705)

1997-02-19 14:11:10# 121. lþ. 73.3 fundur 316. mál: #A vatnsorka utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:11]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Árna M. Mathiesen, fyrir að bera fram slíka fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það hefur komið fram í fjölmiðlum og í umræðum að ástæða er til að endurskoða ýmsa þá kosti sem menn hafa rætt vegna umhverfisáhrifa, t.d. er Bjarnarflagsvirkjun, sem er reyndar gufuvirkjun, komin af borðinu eftir því sem mér skilst og fleiri gætu hugsanlega farið sömu leiðina. Það eru hins vegar til hagkvæmir kostir sem hafa óvenjulítil neikvæð umhverfisáhrif og þar er mér ofarlega í huga sá kostur sem nefndur er Villinganesvirkjun sem hefur mjög lítil neikvæð umhverfisáhrif, fremur jákvæð ef eitthvað er. Það vill stundum gleymast að meta hin jákvæðu umhverfisáhrif en skipulagning við hlið uppbyggingar í ferðaþjónustu er í mínum huga mikilvæg og aðalatriðið það að virkjanir eins og virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði og virkjun skagfirsku fallvatnanna styrkir byggð á svæðunum.