Vatnsorka utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:13:49 (3707)

1997-02-19 14:13:49# 121. lþ. 73.3 fundur 316. mál: #A vatnsorka utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:13]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta var afar fróðleg fyrirspurn og það svar sem við henni kom. En ég vil vekja athygli á því að væntanlega eru allir arðsemisútreikningar á þessum virkjunarkostum byggðir á því að ekki þurfi að greiða íbúum á landsvæðum sem leggja til virkjunarstaðinn neitt sérstakt gjald fyrir virkjunarréttindin. Oft á tíðum leiðir þessi virkjun til þess að það er framleitt rafmagn á einum stað, það er flutt til Faxaflóasvæðisins til að byggja þar upp atvinnulíf sem jafnhliða veikir undirstöður byggðar á þeim stöðum þar sem virkjað er. Það er því eðlilegt að mínu mati, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um Landsvirkjun þar sem Landsvirkjun er orðin gróðafyrirtæki fyrir eigendur, peningaframleiðslufyrirtæki fyrir tvo sveitarsjóði og ríkissjóð, að þær kröfur komi frá landsbyggðinni að það verði að gera ráð fyrir því að borga landsvæðunum peninga fyrir virkjunarréttinn.