Samanburður á launakjörum iðnaðarmanna

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:31:01 (3715)

1997-02-19 14:31:01# 121. lþ. 73.5 fundur 329. mál: #A samburður á launakjörum iðnaðarmanna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr á þskj. 593 hver sé munurinn á kjörum iðnaðarmanna hjá álverinu í Straumsvík annars vegar og hjá iðnaðarmönnum á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Til þess að fylla enn betur út í það munnlega svar sem ég ætla að gefa þá ætla ég að láta dreifa á borð hv. þm. á eftir fyllra svari við þeirri spurningu sem hér er lögð fyrir.

Samkvæmt upplýsingum Ísals eru iðnaðarmenn sem ekki vinna á vöktum með 169.125 kr. í mánaðarlaun fyrir reglulegan vinnutíma. Reglulegur vinnutími er að meðaltali 37,52 klst. á viku hjá iðnaðarmönnum í dagvinnu hjá Ísal að meðtalinni fastri yfirvinnu. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd eru iðnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu með að meðaltali 118.500 kr. í heildarlaun á mánuði fyrir dagvinnu. Dagvinnulaunin eru miðuð við 40 greiddar vinnustundir á viku eða 37,05 virkar vinnustundir. Niðurstaðan er því sú að iðnaðarmenn í Ísal fá um 43% hærri laun fyrri dagvinnu en iðnaðarmenn almennt á höfuðborgarsvæðinu. Ef miðað er við iðnaðarmenn á landsbyggðinni er þessi munur miklu meiri.

Laun iðnaðarmanna hjá Ísal eru þannig samansett að til viðbótar grunnlaunum kemur 5% hækkun vegna sveinsbréfs, starfsaldurshækkun í áföngum frá 0--17%, ferðapeningar sem nema föstum 19,5% á allt ofangreint, föst yfirvinna sem er frá 0,75 klst. til 1,75 klst. á viku hjá dagvinnumönnum, flokksstjórnarálag sem er 15%, vaktaálag sem er 26,4%, bónus föst 40,96%, námskeiðsauki sem er einstaklingsbundinn á bilinu 0--6% og að síðustu orlofs- og desemberuppbót.

Til viðbótar framangreindum launagreiðslum fyrir reglulegan vinnutíma koma til að mynda greiðslur fyrir tilfallandi yfirvinnu og kaupauki vegna vinnu við sérstakar aðstæður sem þar eru innifaldar. Auk þess má nefna ýmis hlunnindi svo sem fæði, vinnuföt og ferðir til og frá Straumsvík án endurgjalds, rétt til hlutastarfs og rétt til flýttra starfsloka með sérstökum lífeyri. Orlof er einnig lengra hjá Ísal en almennt gerist. Starfsmenn fyrirtækisins eiga rétt á 30 daga orlofi eftir þriggja ára starf en þar af verða sex dagar að vera teknir yfir vetrarmánuðina.

Nýjustu upplýsingar kjararannsóknarnefndar um laun iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu eru frá fyrsta ársfjórðungi 1996. Alls voru um 350 iðnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu í úrtaki nefndarinnar. Dagvinnulaun iðnaðarmanna mældust að meðaltali 118.500 kr. á mánuði eins og ég sagði áðan. Til dagvinnulauna telst dagvinnutaxti að viðbættum hvers kyns aukagreiðslum svo sem yfirborgunum, bónusgreiðslum, fæðispeningum, ferðapeningum, fatapeningum og verkfærapeningum.

Þegar yfirvinna er tekin með í samanburðinn minnkar mjög launamunur iðnaðarmanna í Ísal annars vegar og iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu. Yfirvinna í Ísal er lítil. Samkvæmt upplýsingum í Ísal nam unnin yfirvinna iðnaðarmanna í Ísal tæplega einni vinnustund á viku á árinu 1996. Þannig var meðalvinnutími iðnaðarmanna hjá fyrirtækinu innan við 38,5 klst. á viku en iðnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu fengu hins vegar greitt fyrir að meðaltali 49 stundir á viku hverri á fyrsta fjórðungi síðasta árs og námu þá heildarlaun með yfirvinnu 167.100 kr. á mánuði. Þrátt fyrir það langa yfirvinnu eru launin í Ísal enn hærri heldur en heildarlaunin hjá iðnaðarmönnum á höfuðborgarsvæðinu.

Hár starfsaldur starfsmanna Ísals hefur nokkur áhrif á þennan samanburð þótt hann skýri reyndar ekki nema lítinn hluta launamunarins. Meðalstarfsaldur starfsmanna Ísals er um 19 ár sem er gríðarlega hár starfsaldur í fyrirtæki sem ekki hefur starfað nema í 30 ár. Starfsmenn Ísals eru því flestir komnir í hæsta starfsaldursþrep en starfsmenn Ísals fá starfsaldurshækkun í áföngum og nemur hæsti flokkurinn 17% á taxtalaun að viðbættri hækkun vegna sveinsbréfs. Ekki liggur ljóst fyrir hver er starfsaldur annarra iðnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu en líklegt má telja að hann sé lægri en hjá Ísal.

Þau gögn sem iðnrn. hafa borist benda ótvírætt til þess að iðnaðarmenn eigi að jafnaði ekki kost á betur launuðum störfum en hjá Ísal. Laun eru þar mun hærri en almennt gerist og vinnutími styttri. Þetta endurspeglast í háum starfsaldri starfsmanna. Svipaða sögu má segja um laun starfsmnna járnblendiverksmiðjunnar þó laun séu þar heldur lægri en í Ísal.