Greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:46:37 (3722)

1997-02-19 14:46:37# 121. lþ. 73.6 fundur 335. mál: #A greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GuðrS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Sigurjónsdóttir):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn á þskj. 606 til hæstv. heilbrrh. um greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu:

,,Hvers vegna er krafist greiðslu fyrir ófrjósemisaðgerðir á sumum heilbrigðisstofnunum en ekki á öðrum?``

Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að mér er kunnugt um að á Landspítalanum og flestum öðrum sjúkrastofnunum þar sem þessar aðgerðir eru framkvæmdar eru þær gerðar fólki að kostnaðarlausu. Á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði þurfa konur hins vegar að greiða rúmlega 14.500 kr. fyrir þessa sömu aðgerð. Þetta er gróf mismunun milli fólks og hana hlýtur að þurfa að leiðrétta. Þetta er enn merkilegra í ljósi þess að samkvæmt lögum um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir eiga þessar aðgerðir að vera framkvæmdar fólki að kostnaðarlausu. Þarna er því verið að brjóta lög af einhverjum undarlegum ástæðum.

Mér er kunnugt um að St. Jósefsspítali sendir Tryggingastofnun ríkisins reikninga fyrir þessar greiðslur fyrir þann kostnað sem sjúklingurinn borgar ekki. Mér finnst líka mjög undarlegt að Tryggingastofnun skuli greiða hluta og ekki allt, af því að Tryggingastofnun ríkisins hlýtur að vera ljóst hver lögin eru.

Þá er það líka svo að ófrjósemisaðgerð er skilgreind sem ferliverk á sjúkrahúsum en Tryggingastofnun greiðir fyrir ferliverk eins og kunnugt er. Landspítalinn fær hins vegar ekki greiðslur frá Tryggingastofnun fyrir að framkvæma þessa aðgerð þannig að svo virðist sem hún sé ekki ferliverk á þeirri stofnun en eins og fyrr segir fær St. Jósefsspítali greiðslu.

Þá spyr ég ráðherra einnig:

,,Telur ráðherra að slíks misræmis gæti í sambandi við fleiri aðgerðir og læknisverk? Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á því?``

Ástæðan fyrir þessu er sú að ég hef þráfaldlega heyrt starfsmenn sem vinna á göngudeildum stofnana kvarta yfir því að reglur sem gilda séu óljósar, það sé erfitt að fara eftir þeim og fyrir bragðið er fólki mismunað. Það er mismunandi hvað fólk þarf að greiða fyrir ýmis læknisverk bæði milli stofnana og eins milli verka.

Af því að ég var að fá alveg nýjar fréttir þá vil ég að lokum spyrja hvort fyrirhugað sé að breyta reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga sem fara í sjúkraþjálfun á þann hátt að langveikir og fatlaðir sem nú fá sjúkraþjálfun sér að kostnaðarlausu eigi að fara að greiða fyrir þetta á milli 11 og 12 þús. kr. á ári og að breytingin eigi að taka gildi nú fljótlega.