Greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:53:48 (3724)

1997-02-19 14:53:48# 121. lþ. 73.6 fundur 335. mál: #A greiðslur sjúklinga fyrir læknisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GuðrS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Sigurjónsdóttir):

Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég vildi líka láta það koma fram hér að ég veit þess dæmi að fólk hefur farið með reikningana sína til Tryggingastofnunar og fengið þá jafnvel endurgreidda. Hins vegar hefur það eingöngu byggst á þeirri þekkingu sem viðkomandi hafa haft á kerfinu. Þeir hafa ekki fengið neinar upplýsingar frá stofnun um að þetta væri möguleiki, enda er þetta ekki regla sem er að jafnaði í samskiptum lækna og sjúklinga. Sjúklingurinn greiðir þann kostnað sem honum ber, síðan rukkar læknirinn eða stofnunin fyrir það sem upp á vantar en sjúklingurinn er ekki sendur með reikning niður í Tryggingastofnun. Það gildir ekki nema, illu heilli, í samskiptum sjúklinga og tannlækna.

Í framhaldi af þessu held ég að það sé ljóst að fjöldi fólks á rétt á endurgreiðslu frá hinu opinbera. Það hefur þegar greitt þennan kostnað sem því bar ekki að gera. Því vil ég spyrja hvort ráðherra muni beita sér fyrir því, gefa út auglýsingu og reyna að kynna þessum fjölda fólks á einhvern hátt að það geti fengið endurgreiðslur á þessum kostnaði. Ég vona sannarlega að eitthvað verði gert í þessu vegna þess að þetta hefur sennilega sparað hinu opinbera talsvert fé.