Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 16:15:32 (3740)

1997-02-19 16:15:32# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[16:15]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Ég hlýt í fyrstu að gera þá kurteislegu athugasemd við hæstv. viðskrh. að ég ræddi við aðstoðarmann hans í síma í morgun, sagði honum spurningarnar munnlega og bauðst til að faxa þær. Það er ekki umræðuefnið hér í stólnum, við erum að ræða miklu merkilegri hluti. Ég vil líka þakka ráðherra fyrir að bregðast við í morgun, fyrir þessa umræðu, með því að skrifa bréf til bankaráðanna. Það bréf sem hann sjálfur, hæstv. ráðherra, kallaði reglugerð í blaðaviðtali sem ég las við hann. Ég vona að bankaráðin hlýði þá því bréfi alveg eins og þau hlýddu hinu.

Þetta er merkileg umræða og við skulum fylgjast með því hvað bankaráðin gera í fyrsta lagi eftir að hæstv. viðskrh. hefur skrifað bréfið og í öðru lagi eftir að hann hefur lýst því yfir að honum sé stjórnarseta bankastjóranna ekki að skapi. Því að ég hef tekið eftir því að bæði bankastjórarnir og bankaráðsmennirnir eru mjög áhugasamir um afstöðu viðskrh. í málefnum bankanna. Að vísu eru þeir honum ekki alltaf sammála en láta það þá í ljós með kurteislegum og skynsamlegum hætti.

Ég vil á þeim stutta tíma sem ég hef þakka fyrir umræðuna. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þeim hv. þm. Sjálfstfl. sem tóku til máls að formbreytingar eru ekki lausn. Þá fyrst kemur leyndin og það fyrsta sem menn gera er að hækka kaupið sitt.

Af því að menn hafa talað um hvort þetta séu rétt laun eða ekki þá vil ég segja að kannski væri lausnin sú, sem ég heyrði mann stinga upp á að áður en bankastjórar og aðrir háembættismenn eru ráðnir sé þeim gert að leita tilboða í sjálfa sig á erlendum markaði eða hér innan lands og séu þá ráðnir á það kaup en venjuleg meðallaun ella. Það mundi þá kannski sýna hverja við erum að ráða í þessar stöður.

Ég er nú ekki Þröstur Ólafsson og ekki Jóhanna Sigurðardóttir, en ég tók eftir að fulltrúi Búnaðarbankans hér í umræðunum taldi nokkuð hallað á sinn banka gagnvart Seðlabankanum. Ég kalla bara fram hér fulltrúa Seðlabankans. (Forseti hringir.)

En að lokum virðist niðurstaða umræðunnar vera sú frá flokksbróður viðskrh. að það sé svo sem engin lausn á þessu nema sú að jafna launin upp á við, bæta hag ráðherranna, og ég tel það ákaflega skynsamlega niðurstöðu í þessu máli (Forseti hringir.) jafnvel þó að hún stangist á við þá launastefnu ríkisstjórnarinnar að öll laun skuli fylgja launavísitölunni sem mér þykir merkilegt fyrir VMSÍ og aðra að heyra nú þegar verið er að reyna að hífa upp lægstu launin.