Hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 10:39:57 (3743)

1997-02-20 10:39:57# 121. lþ. 75.2 fundur 344. mál: #A hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[10:39]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis er samið vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði um að setja í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins, nr. 94/47 frá 26. október 1994, um verndun kaupenda vegna tilskilinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni.

Á undanförnum árum hafa þróast viðskipti þar sem seld er hlutdeild í afnotarétti að ýmiss konar orlofshúsnæði samkvæmt sérstökum stöðluðum samningum. Algengast er að íbúðarhótel eða annað ámóta íbúðarhúsnæði fyrir ferðamenn sé boðið til sölu á þennan hátt. Söluréttindum til almennings er hagað með ýmsu móti en algengt er að sérstök sérhæfð fyrirtæki annist sölu og umsýslu að öllu leyti. Kaupum á slíkum réttindum fylgir einnig oft réttur til þátttöku í fyrirkomulagi eða skiptum eða endursöluréttindanna á eftir markaði, annaðhvort á vegum þess sem selur réttindin í upphafi en einnig eru dæmi um að slíkir samningar séu seldir á almennum opnum mörkuðum, t.d. verðbréfamörkuðum.

Reynslan hefur sýnt að við markaðssetningu hafa þeir sem selja slík réttindi, sem hér hefur verið fjallað um, notað ýmsar söluaðferðir sem oft á tíðum eru á mörkum þess að teljast vera góðir viðskiptahættir. Algengt er að boðið sé til sölu kynningar á vinsælum ferðamannastöðum og eru kaupendur oft fengnir til þess að undirrita skuldbindandi samninga um kaup á slíkum réttindum án þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um þær eignir sem seldar eru með þessum hætti eða þau réttindi sem kaupandi eignast við kaupin.

Meginmarkmiðið með lagasetningunni er að setja lágmarksreglur um þau viðskipti sem frv. nær til og tryggja kaupendum slíkra réttinda lágmarksvernd við gerð slíkra samninga. Um leið er tryggt að á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu gildi sambærilegar reglur að þessu leyti.

Vil ég þá víkja að einstökum greinum frv.

Í 1. gr. er að finna ákvæði sem afmarkar gildissvið frv. Samkvæmt ákvæðinu tekur þetta frv. eingöngu til samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, en hafa gildistíma sem er lengri en þrjú ár og er það í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Öll ríki sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eru skuldbundin með sama hætti og Ísland að setja í lög sambærileg ákvæði og er að finna í frv. því sem hér liggur fyrir. Samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar ber aðildarríkjum að tryggja að sú vernd sem felst í frv. þessu nái til allra samninga sem gerðir eru um fasteignir sem staðsettar eru á Evrópska efnahagssvæðinu og gildir þá einu hvort um samninginn fari að öðru leyti eftir löggjöf lands sem er utan svæðisins.

Í 2. gr. frv. er að finna nauðsynlegar skilgreiningar.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um að óheimilt sé að víkja frá ákvæðum þess kaupanda í óhag.

Eins og ég hef áður vikið að hefur reynslan sýnt að oft hefur skort verulega á upplýsingar um seljanda, svo og þá fasteign eða fasteignir sem samningur kaupanda og seljanda tekur til. Í 4. gr. er því lögð ítarlega skylda á seljendur til að upplýsa kaupanda um ýmis grundvallaratriði samningsins, svo sem byggingarstig fasteignarinnar, tryggingar sem seljandi setur um að byggingu verði lokið ef um er að ræða ófullfrágengna fasteign, hvaða þjónustu kaupandi hefur aðgang að og hvort kaupum fylgir réttur til þess að hafa aðgang að eftirmarkaði vilji hann síðar selja hlutdeild sína. Um nánari greinargerð um upplýsingaskylduna vil ég vísa til greinarinnar og athugasemda við frv.

Í 5. gr. er kveðið svo á að orlofshlutdeild skal ávallt vera á því tungumáli sem talað er þar sem kaupandi er búsettur og jafnframt ber honum réttur til þess að fá löggilta þýðingu hennar á því tungumáli þar sem fasteignin er staðsett.

Í 6. gr. er að finna mikilvægt ákvæði til verndar kaupendum hlutdeildar í afnotarétti orlofshúsnæðis. Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að samningur um kaup á slíkum rétti skuldbindur ekki kaupanda fyrr en tíu dögum eftir að slíkur samningur var gerður. Sá frestur getur einnig lengst hafi seljandi ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar og getur kaupandi þegar þannig stendur á verið óbundinn af tilboði sínu í allt að þrjá mánuði frá því að hann lýsti yfir vilja sínum til að kaupa hlutdeildina.

[10:45]

Eins og ég nefndi áðan hefur reynslan sýnt að við markaðsfærslu hafa seljendur oft notað aðferðir sem er á mörkum þess að teljast vera góðir viðskiptahættir. Sölukynningar á vinsælum ferðamannastöðum í orlofi kaupandans hafa þráfalt leitt til þess að kaup eru ákveðin án nægilegrar ígrundunar og kaupendur borið skaða af. Þetta er mikilvægt ákvæði þess að í tilskipun Evrópusambandsins er kveðið svo á að kaupandi skuli vera óskuldbundinn í allt að tíu daga. Jafnframt hafi hlutaðeigandi ráðuneyti á Norðurlöndum haft samráð um það að þetta atriði og sá frestur sem lagður er til í frv. að öðru leyti samrýmist því sem lagt er til á hinum Norðurlöndunum.

Réttur kaupenda til að nýta sér að hætta við samninga um kaup á hlutdeild er þó ekki sjálfvirkur og segir í 7. gr. frv. að vilji kaupandi nýta sér rétt sinn til riftunar, þá skuli hann senda seljanda tilkynningu þar að lútandi.

Í 8. gr. er enn fremur kveðið svo á að hafi kaupandi undirritað lánssamning í tengslum við kaup sín á hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, þá er slíkur samningur ekki gildur ef kaupandi hefur réttilega tilkynnt seljanda um riftunina. Ákvæðið er í samræmi við þá meginreglu, sem fram kemur í lokamálsgrein 6. gr., að seljanda er óheimilt að krefja kaupanda um greiðslu fyrr en frestur kaupanda til að rifta samningi er liðinn.

Í 9.--11. gr. er að finna ýmis ákvæði um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara, ákvæði um viðurlög við brotum og gildistökuákvæði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni frv. til laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, og vil, með leyfi forseta, leggja til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.