Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:41:26 (3754)

1997-02-20 11:41:26# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:41]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, ég var ekki viðstaddur hér í fyrradag, ég var með flensu en ekki á biðlista.

Það er eðlilegt að mál séu rædd frá öllum hliðum. Það er alls ekki óeðlilegt að fram komi óskir um upplýsingar frá fleirum en einum flokki eða einum aðila. Það er þannig með flest mál og því á hv. þm. eftir að átta sig á ef framtíð hans verður mikil í þinginu að það er iðulega verið að biðja um skýrslur og heimildir til þess að fólk geti sett sig inn í málið frá öllum hliðum og ég hygg að þarna rekist ekki hvað á annars horn, heldur sé verið að óska eftir þessu með nýjum vinkli nú ef svo má segja.

Hvað varðar tæknibúnað á landsbyggðarsjúkrahúsunum þá eru þau bærilega búin mörg hver. Það er eðlilegt að setja upp vaktir hér við hátæknihúsin til þess að nýta tækin sem allra best, og ég hef tjáð mig um það reyndar áður í blaðagreinum. Við höfum sérfræðimannskapinn, við höfum tækin og sjúklingana, en það vantar að drífa þessa hluti af og áfram, vinna fleiri aðgerðir og ljúka biðlistunum.

Hvað varðar framtíð landsbyggðarsjúkrahúsanna, þá felst hún að verulegu leyti í sérhæfingu á vissum sviðum.