Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:49:46 (3759)

1997-02-20 11:49:46# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þær fjárlagatillögur og þau fjárlög sem voru samþykkt hér um áramót fela í sér samdrátt og niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni. Ég fer ekkert ofan af því. Og hv. þm. getur ekki mótmælt því. Þetta vita allir og það hefur komið mjög skýrt fram. Það er vandi sem hæstv. heilbrrh. þarf að glíma við þessa dagana og hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni.

Vegna umræðunnar um sjúklinga á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, þá tók ég eftir því í máli hv. 13. þm. Reykv. að hann sagðist hafa heyrt að sjúklingar sem kæmu utan af landi fengju strax þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu meðan höfuðborgarbúar þyrftu að bíða. Hann spurði um þetta og bað um að það yrði leiðrétt ef þetta væri rangt. Þetta er orðrómur sem maður heyrir og það er rétt hjá hv. 13. þm. Reykv. að það er mjög erfitt að ræða þessi mál meðan hæstv. heilbrrh. er ekki viðstödd umræðuna. Hún gæti örugglega bætt inn upplýsingum um þetta.

Og ég get bætt því við í þessu andsvari að það kom fram hjá heilbrrh. þegar leitað var eftir upplýsingum úr heilbrrn. að þá vinnu sem verið er að biðja um í þessari þál. er búið að vinna í ráðuneytinu. Það mun fara fram umræða um skýrsluna þegar henni verður dreift á næstu dögum og ég legg bara til að þessir sex hv. þm. Sjálfstfl. sem eru að leggja þetta til taki þátt í þeirri umræðu og við skulum sjá hvað út úr því kemur.