Biðlistar í heilbrigðisþjónustu

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 11:59:27 (3762)

1997-02-20 11:59:27# 121. lþ. 75.6 fundur 210. mál: #A biðlistar í heilbrigðisþjónustu# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[11:59]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er mjög vel að sér um heilbrigðismál og hefur farið yfir hvernig biðlistum og vandanum vegna biðlista hefur verið mætt á Norðurlöndum. Hún fór vel yfir það í ræðu í fyrradag þegar við ræddum um réttindi sjúklinga og aftur nú og hefur verið mjög fróðlegt að heyra það. En ég hefði gjarnan viljað heyra hjá hv. þm. hvaða skoðanir hún hefur sjálf á því hvaða leið skuli fara hér á landi til þess að mæta þessum vanda, af því að hér er nú til umræðu þessi tillaga frá sex sjálfstæðismönnum um þessi mál þar sem óskað er eftir upplýsingum. Þessi mál verða til umræðu á næstu dögum þegar skýrslan frá heilbrrh. kemur að beiðni jafnaðarmanna, en ég hefði gjarnan viljað heyra það í þessari umræðu ef hv. þm. hefur tök á að fara yfir það stutt í andsvari, hvaða skoðun hv. þm. hefur á því hvaða leið skuli fara hér.