1997-02-20 13:41:37# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þingmannsins um að námskrárvinna væri í gangi og mikilvægt að þessi skilaboð kæmust þangað. Ég ætla að vona að þær tillögur sem hér hafa verið samþykktar fyrir mörgum árum komist líka inn í þá námskrárvinnu. Mér er kunnugt um að fjármálakennsla er að einhverju marki í sumum framhaldsskólum en miklu er ábótavant að það sé í öllum skólum og verið sé að taka öll þessi atriði fyrir sem hér hafa verið nefnd. Bankar og sparisjóðir hafa verið með námskeið aðallega í grunnskólunum, en mjög takmarkað þó. Þetta er sambærilegt við að við viljum mörg að vímuefnafræðsla sé í skólum, öllum skólum, á meðan sumir skólar eru með Lions Quest efnið og aðrir eru slappari. Síðan stöndum við í þessum þingsal og erum alltaf að bregðast við eftir á, erum að bregðast við vanda sem hefði ef til vill verið hægt að afstýra, alla vega að draga úr, ef það hefði verið brugðist við með forvörnum og aðgerðum fyrir fram. Á borð þingmanna hefur verið dreift skjali frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þar er verið að bjóða okkur til ráðstefnu út af þungum skuldum heimilanna. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Námstefnunni er ætlað að varpa ljósi á sem flesta þætti skulda heimilanna m.a. út frá lögfræðilegum, hagfræðilegum, félagsfræðilegum og læknisfræðilegum sjónarmiðum. Er námstefnan liður í fræðslu- og upplýsingahlutverki Ráðgjafarstofu.``

Þessu er beint bæði til okkar og ýmissa forsvarsmanna, verkalýðshreyfinga, neytendasamtaka, kirkjunnar, sveitarfélaga, bönkum og útibússtjórum. Við erum alltaf að þessu. Þetta er gott mál og ég er mjög ánægð með að sjá þessa ráðstefnu. En við erum ævinlega að bregðast við og tala um eftir á vandann sem hefur orðið af því að við höfum ekki staðið okkur í stykkinu að ganga þannig frá málum fyrir fram, að reyna eins og unnt er að komast hjá þessum vanda, hvort heldur er vímuefnavandinn eða eins og hér hefur verið nefnt fjármálavandi ungs fólks.