1997-02-20 13:45:15# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við erum sammála og fjarskalega væri það áhugavert að þingmenn í þessum sal gætu átt ærlegar samræður um skólapólitíska stefnu þar sem við værum m.a. að taka þessa þætti inn. Það væri umhugsunarefni hvort við ættum e.t.v. að reyna að standa fyrir slíkri umræðu vegna þess að við erum alltaf að koma takmarkað að afmörkuðum þáttum í mjög pólitískri umræðu um hvað eigi að vera í skólunum. Þegar við reynum síðan að ræða þetta við viðkomandi ráðherra þá fáum við að heyra að námskrárnefnd eða nefnd um skólastefnu o.s.frv. sé að fjalla um þessi mál einhvers staðar til hliðar við ráðuneytið eða á vegum ráðuneytisins og síðan eftir einhvern tíma kemur það sem þeirri hv. nefnd hefur þóknast að leggja til við ráðherrann, að verði annaðhvort í reglugerðum eða skilaboðum til skólanna því fæstir af þessum þáttum koma inn í lög um grunnskóla eða lög um framhaldsskóla. Það er þarna sem hnífurinn stendur í kúnni og gerir mér heitt í hamsi að það virðist ekki duga til að Alþingi skori á sína ríkisstjórn að þetta og hitt skuli fara inn í skólana því einhvers staðar á leiðinni deyr það út inni í einhverjum nefndum sem heita guð veit hvað. Síðan stöndum við eftir hér og veltum fyrir okkur skólapólitískri stefnu og vitum eiginlega ekki hvar hana er að finna. Já, ég og þingmaðurinn erum sammála í þessu en við erum kannski stödd á þeim erfiða vegi sem er svo vandrataður og erfitt að finna endapunktinn á.