1997-02-20 13:47:01# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:47]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að ánægjulegt væri að fá hér opna, líflega og málefnalega umræðu um skólapólitík. Hv. þm. lýsti áðan hvernig sagan segir að vilji Alþingis er oft á tíðum forsmáður. Það hefur mér reyndar sem nýliða hér á þessum vettvangi komið á óvart. Ég hygg að þetta sé ekkert nýtt. Ég hygg að það sem málið snýst um sé aðgreining framkvæmdarvalds og löggjafans og það er önnur umræða sem einhvern tímann þarf að fara fram, þ.e. um styrk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það hlýtur hv. þm. sem fyrrv. ráðherra og verið hvort tveggja í senn fulltrúi löggjafarvalds og framkvæmdarvalds að þekkja. Ég tel að brýn ástæða sé til að Alþingi skerpi á stöðu sinni gagnvart framkvæmdarvaldi og dómsvaldi því lýðræðið gengur út á jafna skiptingu þessa þríeykis.