1997-02-20 13:48:22# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[13:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um tillögu til þál. um aukna fræðslu til að búa nemendur í framhaldsskólum undir þátttöku í þjóðfélaginu. Þetta er mjög góð tillaga og þar er m.a. nefnd fjármálafræðsla sem ég hef mikinn áhuga á og ætla að fjalla hér um. Ég get á margan hátt tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. 5. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, um þetta mál. Því miður hefur orðið ,,lán`` í íslensku tvenns konar þýðingu. Það þýðir í fyrsta lagi hamingja, svo sem barnalán, og svo þýðir það skuldindingu --- að taka á sig skuldbindingu, sem er ólán oft á tíðum og menn rugla þessu saman.

Hér í eina tíð þegar verðbólgan geisaði sem mest þá var lán að fá lán. Að taka á sig fjárhagslega skuldbindingu var í rauninni lán, þ.e. hamingja, en svo er sko alls ekki lengur. Að taka lán í dag þýðir að ráðstafa tekjum framtíðarinnar. Menn eru að ráðstafa tekjum framtíðarinnar þegar þeir taka lán og það gera menn ekki oft. Þetta vill misskiljast og ég tel að það sé vegna þess að alls engin kennsla er um þessi mál í skólunum, ekki nein. Unga fólkið kemur út úr skólanum, tekur námslán, kaupir íbúðir og fær tékkhefti. Ég hef orðið var við alveg ótrúlegar ranghugmyndir unglinga, 18 ára unglinga um tékkhefti. Þeir halda að ef þeir fái tékkhefti, borgi inn tíu þúsundkall, þá geti þeir bara gefið út röð af tékkum fyrir 100--200 þúsundkall og þetta sé bara fundið fé. Svona eru ranghugmyndirnar.

Það sem mér finnst að þurfi að gera er að kenna fólki hvers eðlis lán í meiningunni skuldbinding er, hvað það þýðir. Það þarf að kenna fólki hvað þýðir að skrifa undir einhverja skuldbindingu. Hvað þýðir að skrifa upp á? Það er alveg ótrúlega mikill misskilningur og vanþekking á því sviði. Ég veit til þess að í háskólanum skrifa nemendur hver upp á námslán hjá öðrum, hjá sessunaut sem af tilviljun sat þarna. Hann getur verið búinn að skrifa upp á námslán fyrir fimm til tíu manna á önninni og hefur ekki einu sinni hugmynd um hjá hverjum hann var að skrifa upp á. Svona er kæruleysið. Menn eru að skrifa upp á fyrir vini og vandamenn jafnvel fjarskylda, hitta þá kannski fyrir tilviljun og skrifa þá upp á milljónaskuldbindingar og svo lendir allt í óhemjuvandræðum. Afleiðingin er meiri háttar örlög fólks sem missir íbúðirnar sínar, er hrakið út á ystu nöf og afleiðingin er vanskil, siðleysi og mjög alvarleg mannleg örlög.

Ég held að mjög brýnt sé að stunda þær forvarnir sem í þáltill. er gert ráð fyrir. Hins vegar er sífellt verið að gera meiri og meiri kröfur til skólanna um að kenna. Við viljum hafa forvarnir í skólunum gegn fíkniefnum, að sjálfsögðu. Fræða börnin um afleiðingar fíkniefnaneyslu. Við viljum kenna þeim um jafnrétti. Við viljum kenna þeim um umhverfismál. Kenna þeim að koma fram þannig að þau geti stundað stjórnmál af einhverju viti o.s.frv. Við erum sífellt að gera meiri kröfur til skólanna. Ég held að ekki sé nema ein leið til að laga það. Það er nákvæmlega það sama og öll önnur fyrirtæki gera þegar gerðar eru kröfur um aukna framleiðslu --- en það er einmitt það sem við erum að gera í skólakerfinu, við erum að gera kröfu um aukna framleiðslu, að nemendur læri meira og meira á sama tíma --- það er að auka framleiðnina. Þannig að þessi tillaga er á margan hátt í samræmi við þá tillögu sem ég mælti fyrir fyrir tveimur dögum og rædd var hér í morgun um aðgang nemenda að tölvum, þ.e. að auka framleiðnina í skólakerfinu. Þá er hægt að kenna miklu meira á sama tíma. Og það er það sem við þurfum að stefna að.

Ég tek að öðru leyti undir þessa þáltill. og held að hún sé góð og gegn. Ég hlustaði með athygli á umræður þingmanna um örlög slíkra viljayfirlýsinga frá hinu háa Alþingi þegar þær lenda í myllu framkvæmdarvaldsins. Ég get tekið undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að það er orðið mjög brýnt að Alþingi ræði um aðgreiningu á milli þess og framkvæmdarvaldsins. Við erum að grípa inn í framkvæmdarvaldið eins og við sjáum þegar við ræðum um fjárlögin. Þar erum við að ráða í stöður og þýða bækur og ég veit ekki hvað. Hins vegar er framkvæmdarvaldið að grípa inn í okkar mál með því að senda okkur lög á færibandi til samþykktar. Þarna þarf að gera bragarbót á. Alþingi þarf að hafa meira frumkvæði í því að setja lög og hætta að vasast í framkvæmdum.