1997-02-20 14:02:39# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., Flm. BirnS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:02]

Flm. (Birna Sigurjónsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram um þetta mál og þakka góðar undirtektir þeirra hv. þm. sem hafa tekið undir tillögu mína. Ég ítreka að ég tel að hér sé um að ræða mjög mikilvægan þátt í hlutverki skólans. Hlutverk skólans er þríþætt. Hann á að búa nemendur undir líf og starf og frekara nám. Það er ljóst að í framhaldsskóla sérstaklega beinast kraftarnir fyrst og fremst að því síðastnefnda, þ.e. að búa nemendur undir frekara nám, í einhverjum mæli enn þá að því að búa nemendur undir starf í þjóðfélaginu, en æ meira flyst nú starfsnám yfir í sérskóla og jafnvel háskóla. En þessi þriðji þáttur sem ég hef gert að umræðuefni, þ.e. að búa nemendur undir líf í lýðræðisþjóðfélagi, hefur verið hornreka í skólakerfinu. Þá er í rauninni alveg sama hvort litið er til framhaldsskólans eða grunnskólans. Í grunnskólanum er í núgildandi aðalnámskrá kafli um greinar sem lúta að þessu, 17. kafli námskrárinnar, og þær greinar sem eru þar eru gjarnan kallaðar meðal kennara tímalausu greinarnar vegna þess að þeim er ekki ætlaður eyrnamerktur tími. Og það veit ég að þær verða þess vegna allt of oft út undan í kennslunni þó að vissulega séu á því undantekningar.

Mér er ljóst að nýju lögin um framhaldsskólann gera ráð fyrir þessari fræðslu en eins og hefur verið rakið hér á undan þá nægir ekki alltaf að festa í lögum ákvæði um skólastarf. Það þarf meira til að koma nýjum þáttum í framkvæmd. Ég tel það mjög mikilvægt að í aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla verði kveðið skýrt og ótvírætt á um hlutverk skóla og skyldur þeirra til að gera nemendur að sjálfstæðum einstaklingum í nútíma þjóðfélagi eins og það er orðað. Við berum öll ábyrgð á því að skólinn og menntakerfið undirbúi unga fólkið raunverulega til að takast á við það sem blasir við þegar út í lífið kemur. Ungt fólk er oft að takast á við það allt í einu að stofna til sambúðar, takast á við fjármálin og allt sem því fylgir, eftir að hafa verið í öruggum höndum heimilisins sem stundum er kallað hótel mamma og margir hafa farið flatt á því. Þá taka við alls kyns gylliboð svo sem dæmin sanna mjög nýlega og þar getur verið ýmislegt sem erfitt er fyrir ungt fólk að standast. Og þetta hefur komið mjög vel fram hjá þeim sem hafa talað hér á undan.

Það hefur verið talað um að þetta sé víð tillaga og spurt við hvað sé átt. Ég vil vísa til þess að hver framhaldsskóli setur sér ramma. Það er talað um að framhaldsskólar setji sér skólanámskrá eins og reyndar margir grunnskólar hafa gert og þar hlýtur að verða tekið á því hvernig nákvæmlega hver framhaldsskóli tekur á máli eins og þessu og hvernig hann kemur því fyrir í sínu skipulagi. Ég held að það eigi ekki að gefa út eina línu um hvort þetta á að vera einn áfangi, hvort þetta á að vera hluti af mörgum námsgreinum. Hluti af þessu gæti t.d. heyrt undir líffræði, annað undir stærðfræðiáfanga. Þetta verður hver skóli að meta. Aðalatriðið er að þetta verði gert og skólarnir sinni þessu mikilvæga hlutverki sínu eins og lögin kveða nú þegar á um.