1997-02-20 14:12:52# 121. lþ. 75.7 fundur 308. mál: #A fræðsla til að búa nemendur í framhaldsskóla undir þátttöku í samfélaginu# þál., Flm. BirnS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:12]

Flm. (Birna Sigurjónsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum alveg sammála, hv. þm. Sigríður Jóhannesdótir og ég, í því efni hvað varðar mikilvægi námsgagnagerðar og mikilvægi þess að veita í það fjármuni. En ég kom nú aðeins að því í framsögu minni að ég tel kannski ekki endilega rétt að steypa þessum námsþáttum sem ég nefni til í tillögu minni undir einn hatt, ég er ekki viss um að það fari endilega vel á því. Þar fyrir gæti verið mjög þarft að búa til heildstætt námsefni sem tæki yfir einhverja af þessum þáttum, svo sem samskipti kynjanna, fjölskylduábyrgð, foreldrafræðslu og annað sem myndar samstæða heild. En það þarf þá að huga vel að endurskoðun á því námsefni og reglulega ef það á að ná tilgangi sínum. Hv. þm. þekkir það eins vel og ég, a.m.k. eins og verið hefur, að námsefni hér er orðið allt of gamalt í meðförum skólanna, því miður. Við höfum ekki fengið endurnýjun á námsefni eins og þarf og ég tel að fræðsla af þessu tagi mundi missa marks ef hún væri kennd með úreltu námsefni. Það held ég að væri ekki til bóta. Þetta verður að vera lifandi kennsla í takt við það sem er að gerast hverju sinni.