Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 14:27:27 (3805)

1997-02-20 14:27:27# 121. lþ. 75.14 fundur 243. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:27]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu um úttekt á hávaða- og hljóðmengun, sem ég flyt ásamt hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, Lúðvík Bergvinssyni, Kristínu Halldórsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur og Ragnari Arnalds. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram víðtæka úttekt á hávaða- og hljóðmengun hérlendis og leggja fyrir næsta þing niðurstöður hennar og tillögur til úrbóta.``

Þessi tillaga kom fram á síðasta þingi en var þá eigi útrædd. Þá var hv. þm. Ragnar Arnalds meðflutningsmaður en nú eru fleiri sem flytja málið með okkur úr þremur öðrum þingflokkum, þannig að ég vona að sá stuðningur verði til þess að tillagan fái afgreiðslu á þessu þingi.

Samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins hefur aldrei verið gerð heildarúttekt á hávaða á Íslandi en talið er víst að hér á landi búi margir við hávaða sem er langt yfir settum viðmiðunarmörkum. Það verður að telja mjög brýnt að gerð verði úttekt á þessu ástandi þannig að unnt sé að leggja það til grundvallar úrbótum. Þar við bætist síðan þörfin á að settar verði reglur til að vernda fólk gegn hávaða á almannafæri. En í því skyni getur einnig verið þörf á könnun á ríkjandi aðstæðum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það virðulegur forseti, að hávaði af margvíslegum tagi fer sívaxandi. Þar er ekki aðeins um að ræða hávaða frá umferð og atvinnurekstri heldur einnig tónlist og talað orð úr hátölurum á almannafæri, í almenningsfarartækjum, verslunum, veitinga- og samkomuhúsum, líkamsræktarstöðvum og á útivistarsvæðum ætluðum almenningi og auðvitað miklu víðar en hér er nefnt. Hljóðmengun yfir ákveðnum mörkum getur sannanlega verið heilsuspillandi, valdið skemmdum á heyrn auk truflunar og margvíslegra sálrænna áhrifa sem valdið geta andlegri vanlíðan.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á ágætu innleggi í þetta mál sem kom fram í Morgunblaðinu sl. sumar en talsvert fór fyrir blaðaskrifum og umræðu um hávaða sem mengun einmitt á sl. sumri. Sumt kviknaði kannski vegna deilna og umræðna um kröfur til íbúðarhúsnæðis á tilteknum stað í Reykjavík, nánar tiltekið bygging háhýsis á Kirkjusandi, ef ég man rétt.

[14:30]

Í Morgunblaðinu 21. júlí 1996 er að finna yfirlitsgrein um þetta efni undir yfirskriftinni Heilsuspillandi hávaði og þar er í rauninni gert meira úr máli heldur en við flutningsmenn höfum gert í greinargerð og leiddar fram athuganir og röksemdir sem komið hafa fram í alþjóðlegum ritum. Sérstaklega er tekin fyrir greinargerð úr blaðinu Der \mbox{Spiegel} og ástandið í Þýskalandi þar sem komið hefur fram við rannsóknir umhverfisstofnunar Þýskalands og fleiri aðila að hávaði er talinn hafa miklu víðtækari áhrif á heilbrigði manna heldur en talið hefur verið til þessa. Þessu vildi ég koma hér á framfæri um leið og ég vek athygli á þessu yfirliti og ýmsum skrifum í blöðum og umtali í fjölmiðlum á síðasta ári sem bætti talsvert við það sem áður hefur fram komið.

Það er mjög brýnt, virðulegur forseti, að af opinberri hálfu sé unnið skipulega gegn óþörfum og truflandi hávaða til verndar heilsu manna og til að tryggja rétt einstaklingsins til ómengaðs umhverfis. Umhverfi með hávaða er ekki ómengað umhverfi. Hávaði frá tólum og tækjum er nefnilega röskun sem ber að halda í lágmarki og enginn á að þurfa að þola síbylju úr hátölurum í formi talaðs orðs eða hljómflutnings sem hann kærir sig ekki um. Þar sem margir koma saman á réttur minni hluta gagnvart hljóðmengun að vera jafnríkur og meiri hluta, jafnt á vinnustað sem á almannafæri, og menn ættu að hafa í huga þá löggjöf sem hefur verið innleidd varðandi ýmsa þætti mengunar, m.a. varðandi reykingar og þá réttarstöðu sem þar er uppi lögum samkvæmt. Ég er ekki að segja að það sé sjálfgert að ganga jafnlangt að einn aðili geti stöðvað hávaða á stöðum þar sem hann verður vart umflúinn eða þar sem menn eru að kaupa sig inn á slíkt til afþreyingar eða skemmtunar. En einnig þar ber að sjálfsögðu að virða heilbrigðismörk.

Það hefur orðið mjög mikil umræða um hávaða frá umferð. Og auðvitað er það ein af uppsprettunum og í þéttbýlinu hér í Reykjavík og víðar er það þessi hávaði sem snertir flesta og vaxandi umferðarþungi og hraði umferðar veldur auknu angri frá þessu eins og kvartanir sem borist hafa til yfirvalda í Reykjavík sanna og sýna sem og sú umræða sem fram hefur farið hér í borginni, m.a. um breytingar á skipulagi og aðgerðir til útbóta eins og að taka Miklubraut niður í stokk að hluta sem mér skilst að sé ein af tillögunum sem fyrir liggur varðandi breytt aðalskipulag Reykjavíkur. Þannig má vísa til mjög margra þátta að þessu leyti.

En ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að þrátt fyrir að hávaði í þéttbýli sé mikil og vaxandi meinsemd þá þurfum við einnig að gæta að umhverfinu þess utan að því er varðar hávaðauppsprettur. Þar er sannarlega þörf á úttekt og að reglur séu settar. Ég vek t.d. athygli á því hvernig fer á svæðum sem eru notuð til útivistar, t.d. skíðasvæðum svo eitt dæmi sér tekið, ef þar hleypt inn eða látið viðgangast að menn séu á vélknúnum tryllitækjum í næsta nágrenni og hvaða áhrif það hefur. Það eru svona þættir sem ber að taka til athugunar, virða og setja um þá reglur. Þetta á auðvitað einnig við um flugumferð yfir svæðum, yfir útivistarsvæðum og annað af þeim toga sem ber að taka á.

Í fskj. með grg. eru raktar þær reglur helstar sem gilda eða hafa verið settar um þetta og lagaákvæði og ég vísa til þess en ég vísa jafnframt til þeirrar skoðunar að æskilegt væri að setja um þennan þátt mengunar samræmda heildarlöggjöf þannig að menn hafi á einum stað þau ákvæði sem gilda í íslenskum lögum um þetta efni. Ekki þarf langt að leita fyrirmynda til þess að taka á svona málum. Ég er hérna með tvær norrænar úttektir um þetta efni, unnar fyrir fáum árum. Þetta er bók um úttekt nefndar í Svíþjóð um hávaðamengun úti í náttúrunni, Naturupplevelser utan buller, en kvalitet att värna, á sænskunni. Og hér Betænkning fra det tværministerede støjudvalg sem vann í Danmörku fyrir dönsk stjórnvöld 1991--1992. Og svo sé nú getið góðra verka íslenskra um þetta efni, það ágæta tímarit Arkitektúr, verktækni, skipulag, AVS, sem gefið er út af mikilli þrautseigju af Gesti Ólafssyni og margir hafa lagt gott til, fjallar um þetta í 2. tbl. 1995 undir heitinu Hljóðvist og vekur þar athygli á ástandi þessara mála. Ég vil einnig geta þess að íslenskir aðilar, verkfræðistofur, hafa verið að bjóða fram aðstoð sína og búa yfir þekkingu til þess að hjálpa til við úttekt af þessum toga sem hér um ræðir, til þess að mæla hávaða. Og ég vísa til þess að fátt er mikilvægara í skipulagi, jafnt í skipulagi þéttbýlis sem og varðandi landnotaskipulag almennt, heldur en að taka tillit á skipulagsstigi, undirbúningsstigi, varðandi framkvæmdir, lagningu vega, ákvarðanir um útivistarsvæði og annað --- taka tillit til þessarar mengunar og draga úr henni eins og frekast er kostur.

Ég held, virðulegur forseti, að ég lengi ekki mál mitt um þetta. Mér finnst að málið ætti að tala fyrir sig. Allir hljóta að hafa þekkingu á þessu og hafa álit á þessu og hafa verið þolendur þeirrar óþolandi ört vaxandi mengunar sem er fylgifiskur nútímans og sem hefur verið vanrækt allt of lengi að taka á hérlendis. Ég tel að við séum miklir eftirbátar nágranna okkar að þessu leyti og við þyrftum því að fá úttekt á þessum málum. Hversu víðtæk hún verður þarf auðvitað að taka afstöðu til ef tillagan verður samþykkt. Það eru ekki dregin mörk beinlínis eða lagðar línur um hvernig því skuli hagað og ég tel allt betra en ekkert í þessu efni og vænti auðvitað, ef tillagan fær brautargengi, að þá verði vel að þessu staðið. En hér er auðvitað um að ræða málefni sem ekki þrýtur, því miður, þ.e. sem hlýtur að vera stöðugt á dagskrá því ég er ekki bjartsýnn á að vandamálið hverfi og síst af öllu af sjálfu sér. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. umhvn. þingsins.