Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:10:03 (3813)

1997-02-20 15:10:03# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:10]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stöðu drengja í grunnskólum, en meðflutningsmenn mínir eru Siv Friðleifsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem leiti orsaka þess að drengir eiga við meiri félagsleg vandamál að etja í grunnskólum en stúlkur og námsárangur þeirra er lakari. Jafnframt því að greina orsakir aðlögunarvanda drengja verði nefndinni falið að benda á leiðir til úrbóta.

Nefndina skipi fagfólk á sviði uppeldis- og kennslumála og að því stefnt að hún skili af sér í tíma svo að unnt verði að taka tillit til niðurstaðna hennar og tillagna við gerð nýrrar námskrár fyrir grunnskóla sem taka á gildi árið 1998.``

Herra forseti. Það hefur lengi verið umræðu- og áhyggjuefni margra skólamanna hve staða drengja í skólakerfinu hefur almennt verið önnur og að ýmsu leyti erfiðari en stúlkna. Þeir aðlagast ekki jafn vel kröfum og væntingum skólans og stúlkurnar. Kannanir hafa sýnt að drengir taka mun meira af tíma kennarans en stúlkur þar sem vandamálin sem kennarinn og skólinn þurfa að fást við, hvort sem þau eru tengd námi eða aga, tengjast mun oftar drengjum. Drengir eru miklu fleiri í hópi þeirra sem þurfa á sérþjónustu og stuðningi innan skólanna að halda. Þá hefur námsárangur stúlkna verið betri. Síðastliðið vor voru stúlkur með hærri meðaleinkunn en drengir í öllum fjórum greinum samræmdra prófa 10. bekkjar. Og í samræmdum prófum sem fram fóru sl. haust í íslensku og stærðfræði um land allt í 4. og 7. bekk voru stelpurnar alls staðar með betri árangur.

Rannsóknir hafa farið fram og ýmsar tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir um mismunandi hlutfall kynjanna þegar kemur að mælanlegum þáttum þeirrar þjónustu og stuðnings sem skólinn veitir. Drengir eru yfir 70% þeirra nemenda sem taldir eru þurfa sérkennslu í grunnskólunum. Sama er upp á teningnum þegar röðin kemur að sérdeildum skólanna, þar eru drengirnir einnig, eða hafa verið, u.þ.b. 2/3 nemenda.

Hvernig stendur á þessu þunga vægi drengjanna í sérkennslunni? Það er mælanlegur munur á námsárangri kynjanna eins og fram hefur komið. Sú tilgáta hefur þó einnig verið sett fram að ekki sé eingöngu um námsvanda að ræða heldur leitist skólinn eftir þessum leiðum við að losa sig við óstýriláta nemendur út úr bekknum og inn í sérkennsluna og endurspegli þetta hlutfall því e.t.v. ekki síður skort á úrræðum við hæfi þeirra nemenda sem t.d. eru taldir ofvirkir eða misþroska og eru óstýrilátir í skóla, lúta ekki bekkjaraga. Sama er. Þetta þarf að skoða nánar og bregðast rétt við. Fjöldi drengja er svo í svipuðu hlutfalli eða um það bil þrír drengir á móti einni stúlku þegar litið er til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskólanna. Eftir þessum leiðum, stuðningi, sérkennslu og sálfræðiþjónustu hefur grunnskólinn m.a. reynt að koma til móts við mismunandi stöðu og þarfir nemenda sinna. Það er hins vegar ljóst að greina þarf orsakir þess að drengjum tekst almennt verr að fóta sig í skólakerfinu en stúlkum. Þegar orsakirnar eru ljósar er líklegra að unnt verði að mæta þörfum drengjanna strax við upphaf skólagöngu í stað þess að takast síðar á við afleiðingar þess að skólinn, eins og hann er uppbyggður, virðist síður henta drengjum en stúlkum. Skólinn virðist líka hafa ólíkar áhyggjur af drengjum og stúlkum.

Sérfræðingar hafa sett fram tilgátur um að þroski kynjanna sé mismunandi þegar grunnskólanám hefst. Þannig sé námið fyrstu árin eins og eðlilegt framhald af leikjum og föndri stúlknanna en drengirnir eigi mun erfiðara með bæði fínhreyfingar og tjáningu. Þetta rímar við tilfinningu margra kennara. Rannsóknir hafa sýnt að þegar í leikskóla er munur á þroska og getu. Breskar rannsóknir hafa t.d. leitt í ljós að þá þegar séu stúlkur fremri drengjum, bæði í stærðfræði og móðurmáli. Markviss þjálfun strax í leikskóla gæti bætt úr ef niðurstaðan verður sú að taka þyrfti sérstaklega á tilteknum þáttum. Þar gætu menn e.t.v. tekið mið af því merka uppeldisstarfi sem Margrét Pála Ólafsdóttir hefur staðið fyrir og þróað í svokallaðri hjallastefnu þar sem unnið hefur verið markvisst að því að mæta þessum mismunandi þroska kynjanna með svokölluðu viðbótaruppeldi.

[15:15]

Ein ástæða þess að drengir eiga við aðlögunarvanda að etja í skólum er talin sú að fáir karlar og sífellt færri eru við kennslu og því fáar fyrirmyndir í grunnskóla og þá ekki síður í leikskóla, fyrirmyndir sem drengir geti samsamað sig. Þessi staðhæfing er þeim mun alvarlegri að margir feður vinna fjarri heimilum, þar með taldir þúsundir sjómanna, vinnudagur margra feðra er mjög langur og um það bil fjórðungur barna býr með einstæðum mæðrum. Karlmaður sem starfar sem kennari getur því verið raunveruleg fyrirmynd þeim börnum sem lítt kynnast körlum í uppeldi sínu. Hann er a.m.k. staðfesting þess að karlar sinna líka uppeldisstörfum.

Drengir fá ákveðin skilaboð frá umhverfinu um hvers konar manneskjur þeir eigi að vera. Bæði fagfólk og foreldar, og við höfum séð þess gæta í tillöguflutningi á Alþingi, hafa vaxandi áhyggjur af því að nútímasamfélag bjóði drengjum upp á stöðugt verri fyrirmyndir og að hetjuímyndir þeirra verði sífellt ofbeldiskenndari. Það hefur komið í ljós hjá þeim drengjum sem leita skólasálfræðinga að raunverulegir karlmenn eru ekki fyrirmyndir þeirra, heldur ofurmenni teiknimynda, myndbanda og kvikmynda.

Því hefur einnig oft verið haldið fram að karlmenn eigi ekki eins gott með að sýna tilfinningar og konur né heldur að vinna úr þeim. Skoða má sjálfsvíg og áfengisneyslu karla út frá því. Uppeldi er talið eiga hér stóran þátt en sárlega vantar rannsóknir á orsökum þess kynjamunar sem fram kemur t.d. ef litið er til alkóhólisma. Á það hefur verið bent að drengir eigi ekki bara erfiðara með að tjá sig við upphaf skólagöngu heldur einnig við lok grunnskóla og er því líklegra að þeir loki tilfinningar sínar inni eða láti jafnvel hendur skipta.

Herra forseti. Forvarnastarf gegn vímuefnaneyslu þyrfti að beinast markvissar að því að þjálfa sérstaklega drengi í samskiptum og tjáningu ef þetta er svona. Það eru drengirnir sem fara út í lífið án þess að kunna að tjá tilfinningar eða ráða við þær sem eru sérstakur áhættuhópur. Um 65% gesta Unglingaheimilisins hafa verið drengir. Afskipti lögreglu af unglingum sýna einnig að drengir eru mun líklegri til að lenda undir eftirliti lögreglu eða 86% á móti 14% stúlkna. Dauði vegna slysa er einnig margfalt algengari meðal pilta og drengja og sama á við um sjálfsvíg. Ásþór Ragnarsson sálfræðingur sem rannsakað hefur þessi mál mikið hefur kallað þetta háa hlutfall ,,gjald karlmennskunnar``.

Herra forseti. Jafnréttisbaráttan hefur aðallega verið háð af konum. Hún hefur leitt til þess að losnað hefur um ýmsa staðlaða ramma kvenímyndarinnar og staða kvenna hefur að mörgu leyti breyst enda hafa þær unnið mjög meðvitað að því. Ábyrgð á börnum og heimili er þó enn hlutskipti flestra kvenna og kann að vera ein af orsökum þess launamisréttis sem þær búa við. Við því þarf að bregðast. Það verður ekki gert nema við beinum sjónum okkar einnig að stöðu og uppeldi drengja, karla framtíðarinnar, og leitum orsaka þess munar sem hér hefur verið rakinn því hann snertir auðvitað stúlkurnar einnig með ýmsum hætti. Fyrirferð drengjanna innan skólanna er hreint ekki einhlít vísbending um sterka stöðu þeirra heldur e.t.v. þvert á móti. Athyglin sem þeir fá er oft fyrst og fremst neikvæð. Rannsóknir á Norðurlöndum sem fram hafa farið í skólastofunni sýna að í kynblönduðum bekkjum eins og hér hafa strákar almennt yfirhöndina. Þeir bæði kalla á og fá með góðu eða illu miklu meiri athygli en stúlkurnar. Talað er um að allt að 80% af tíma kennarans fari til drengjanna. Á meðan bíða stúlkurnar prúðar eftir að röðin komi að þeim. Staða drengja hefur því bein áhrif á stöðu stúlkna í skólunum og samskiptin þar leggja auðvitað grunn að ákveðnu munstri í framtíðinni.

Herra forseti. Aðeins meira um stöðu og uppeldi stúlknanna. Breskar rannsóknir sýna að náms- og starfsval stelpna sem koma úr stelpubekkjum eða stelpuskólum er mun fjölbreyttara en hinna og þær standi sig betur í samkeppnisþjóðfélaginu, e.t.v. vegna þess að í einkynja bekk verða þær að tileinka sér þau hlutverk sem strákunum eru látin eftir í blönduðu bekkjunum, svo sem að taka forustu og fanga athygli. Breskar, danskar og sænskar rannsóknir eru samhljóða um að sjálfstraust stelpna styrkist einnig við að vera í stelpudeildum. Í tilraun sem gerð var við Gagnfræðaskólann á Akureyri árið 1990--1991 kom það sama fram. Einungis eru komnar skýrslur um fyrri vetur þeirrar rannsóknar, sem náði yfir tvo vetur, en endanleg skýrsla þeirra sem héldu utan um verkefnið, sem voru Kristján Magnússon sálfræðingur og Valgerður Bjarnadóttir, þáverandi jafnréttisfulltrúi á Akureyri, er því miður ekki fullgerð þar sem þau meta þetta verkefni í heild. En hin almenna samfélagslega hugsjón á bak við þetta verkefni var að stuðla að jafnrétti kynjanna með tímabundinni áherslu á vinnubrögð til að koma til móts við sérkenni hvors kyns. Í því sambandi var vísað til grunnskólalaganna þar sem segir í 2. gr. að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda.

Í þeim skýrslum sem gefnar voru út eftir þennan eina vetur kemur fram að töluverður meiri hluti, sem reyndar vex meðan á tilrauninni stendur, álítur að kynin tileinki sér þekkingu á mismunandi hátt og hafi þar af leiðandi mismunandi þarfir í námi. Um er að ræða nemendur í 8. bekk og þessar mismunandi þarfir kunna þegar hér er komið sögu m.a. að ráðast af því sem á undan er gengið í uppeldi og skólagöngu. Niðurstöður segja a.m.k. eitthvað um mismun á að kenna stelpum og strákum og í sumum tilfellum gefa þær vísbendingar um hvernig rétt væri að haga kennslunni til að koma betur til móts við þarfir hvors kyns fyrir sig. Reynslan af kynskiptingu í bekki virðist einnig hafa styrkt þá skoðun kennarahópsins að tímabundin aðgreining geti jafnað aðstöðu kynjanna til að njóta náms við hæfi.

Tjarnarskóli í Reykjavík er í vetur með tilraunaverkefni í gangi þar sem kynskipt er í stærðfræði og íþróttum í 8. og 9. bekk en blandað í árgöngum. Þetta er gert undir þeim formerkjum að einstaklingurinn eigi að vera í forgrunni og eftir þessum leiðum er þessi skóli að reyna að mæta mismunandi þörfum sinna nemenda.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu nefnt dæmi um rannsóknir og kannanir sem fram hafa farið á þeim þáttum sem hér um ræðir og vil með því benda á að heilmikið efni er til um þessi mál. Um þann mun sem vissulega virðist vera á kynjunum bæði námslega og félagslega og virðist koma í ljós þegar í leikskóla. Þó þessi tillaga taki einungis til grunnskólastigsins er ljóst að sum þeirra vandamála sem leita þarf orsaka fyrir og taka á er að finna bæði í leikskóla og framhaldsskóla því að svo miklu leyti sem staða drengja og pilta á þeim skólastigum hafa verið könnuð hafa niðurstöður verið áþekkar.

Við getum tæpast litið svo á að grunnskólinn hagi störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda svo sem fyrir er mælt í lögum þegar svo áberandi kynbundinn munur er á stöðu nemendanna, þegar það liggur fyrir að stúlkur standa drengjum framar á öllum þeim samræmdu prófum sem fram fara í grunnskólanum hvort sem þær eru 9 ára, 12 ára eða 15 ára, hvort sem er í stærðfræði eða móðurmáli og tungumálum. Það liggur líka fyrir að þetta gerist þrátt fyrir það að megnið af þeim stundum sem varið er til stuðnings og sérkennslu fer til stráka og að mikill meiri hluti þeirra fá þjónustu sálfræðinga skólans. Sálfræðingar sem mikla reynslu hafa af starfi innan skólanna segja líka að alltaf séu það fleiri strákar, sem líður illa vegna þess að þeir verða líka verst úti félagslega. Einhverra hluta vegna er staða strákanna svona bág og við því þarf að bregðast og eðlilegt að reynt sé að beina vinnu skólanna í þann farveg við setningu nýrrar námskrár fyrir grunnskóla en að henni er nú unnið, eins og fram hefur komið, og af því munu stúlkurnar líka njóta góðs. Þetta mál er jafnréttismál og forvarnamál. Tillagan gerir ráð fyrir því að unnið verði forvarnastarf með börnum og unglingum á þeirra vinnustað sem eru skólarnir.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. menntmn.