Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:32:51 (3815)

1997-02-20 15:32:51# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:32]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka efnislega undir þá tillögu sem hér liggur fyrir og er til umræðu og færa sérstakar þakkir til 1. flm. fyrir afskaplega vandaða, yfirgripsmikla og málefnalega framsöguræðu. Þessa umræðu tel ég fyllilega tímabæra.

Segja má að umræðan um jafnrétti kynja á síðustu árum hafi fyrst og fremst snúist um stöðu kvenna, bæta hlut kvenna í samfélaginu og hefur svo sem verið og er af nógu að taka þar. Ég nefni þar launamun, ég nefni starfsval, völd og áhrif í samfélaginu almennt. Af nógu hefur verið að taka og af nógu er að taka. Um þetta hefur jafnréttisumræðan að mestu leyti snúist hin síðustu ár. Segja má því að karlpeningurinn, drengir, karlmenn, hafi um sumt gleymst í umræðunni og þess vegna fagna ég þeirri tillögu sem hér er komin fram. Það virðist nefnilega vera full ástæða til að skoða hlut karlmanna í jafnréttisumræðunni, þó e.t.v. undir öðrum formerkjum og á öðrum forsendum en jafnréttisumræða kvenna. Það snýr nefnilega að því sem hefur komið fram í ágætri framsöguræðu og eins í ræðu síðasta hv. þm. um tilfinningaþáttinn.

Eftir að hafa starfað sjálfur um 20 ára skeið við skóla get ég tekið mjög undir það sjónarmið og það hefur ávallt vakið undrun mína hversu piltar, einkum í efri hluta grunnskólans, eru mun fyrirferðarmeiri, agavandamálin miklu bundnari við unga karlmenn meðan kvenpeningurinn hefur verið ,,meðfærilegri`` a.m.k. í augum kennara.

Það hefur líka vakið athygli, eins og fram hefur komið í framsöguræðu, að námsárangur drengja í grunnskóla sérstaklega er lakari. Hér er eitthvað sem veldur og er ástæða til að skoða og ég lít svo á að það sé markmið þessarar tillögu.

Þá er líka ástæða til að ræða það viðkvæma mál sem hefur þó verið að opnast nú á síðustu missirum, þ.e. hin háa tíðni sjálfsvíga ungra drengja hér á landi sem mun vera með því hæsta sem þekkist í veröldinni, einkum í sjávarþorpum. Það vekur óneitanlega upp miklar spurningar og hlýtur að segja okkur að skýringanna sé að leita í okkar menningu. Það er örugglega efni þessarar tillögu að gera tilraun a.m.k. til að finna þá skýringu. Getur verið að það tengist sjómannastéttinni? Íslendingar hafa mikið stundað sjó og þessi háu sjálfsvíg í sjávarþorpum eigi rætur sínar að rekja til þeirrar menningar og þeirrar einangrunar sem sjómenn hafa verið í fjarri heimahögum og bera síðan heim með sér í samfélagið? Ég varpa þessu fram. Það er auðvitað það sem hlýtur að verða rætt í þeirri nefnd sem um er að ræða verði tillagan samþykkt.

Menning okkar hugsanlega segir okkur það að konan er hin mjúka tilfinningavera en karlmaðurinn á ekki og má ekki sýna tilfinningar. Það er kannski vandinn og rót vandans. Ég vil í þessu samhengi minna á þá umræðu sem hefur komið fram á síðustu árum í kjölfar úthafsveiða Íslendinga þar sem umræða um þunglyndi, jafnvel sjálfsvíg sjómanna á hafi úti, hefur komið upp á yfirborðið og verið einkum nú í vetur mikið til umræðu. Hugsanlega er í rót vandans að einhverju leyti að finna skýringar á því sviði.

Ég vil líka rifja upp í þessu sambandi samtöl sem ég hef átt við sjómenn. Nú hefur búnaður til allrar hamingju í mörgum af okkar stærri fiskiskipum, úthafsveiðiskipum, verið mjög fullkominn til þess að rækta líkamann. Menn hafa meira að segja fengið í ,,best búnu skipunum`` sjónvörp inn í klefa sína en menn hafa áttað sig á og ræða það sín á milli að hin félagslega einangrun er skuggahlið þessa góða útbúnaðar. Hin félagslegu tengsl hafa minnkað og þunglyndi í kjölfar aukist. Þetta ræða menn sín á milli og það hlýtur að vera ástæða til að skoða þetta í því samhengi sem tillagan er sett fram.

Ég held einmitt að í framhaldi af þessu sé líka ástæða til að minna á umræðu sem stundum kemur upp um hinn miskunnarlausa sturtuhúmor sem svo er kallaður, þ.e. hinn kaldrifjaði húmor sem tíðkast í sturtuklefum íþróttahúsanna þar sem oft er talað um að einelti og miskunnarleysi þrífist. Hvaða áhrif hefur það á karlmenn, hinn kaldrifjaða karlmann sem lifir af og þó ekki síður þann sem ekki stendur undir því kaldrifjaða andrúmslofti sem þar hefur mótast?

Ég tek einnig undir það sem hér hefur komið fram að einstæðar mæður eru margar á Íslandi. Leikskólakennarar eru að langsamlega mestu leyti konur. Hið sama gildir um grunnskólakennara og nú eru konur um það bil að ná meiri hluta í framhaldsskólunum. Það er þróunin. Það eru auðvitað margar skýringar á því. Það eru launin og þar fram eftir götunum. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma, en þá komum við einmitt að þeirri fyrirmynd sem ungir drengir hafa í litlum samskiptum við karlmenn. Hvert sækja þeir sínar fyrirmyndir? Komum við þá aftur að þætti fjölmiðla sem hafa verið hér til umræðu. Fyrirmyndirnar eru kaldrifjaðir ofbeldisseggir á stundum en miskunnarlausir sem aldrei mega eða eiga sínar tilfinningar. Niðurstaðan er því sú að karlrembuheimurinn, það er hinn kaldrifjaði karl sem hvorki má eða á að sýna tilfinningar.

Við auðvitað finnum engin eða komum ekki með einhlít svör eða skýringar við þeirri menningu í umræðunni. En ég vil fagna því sérstaklega að þessi tillaga skuli vera komin fram í því skyni að finna svör og þó það sem er meira um vert --- að finna úrræði.

Þá komum við einmitt að þeirri umræðu sem var fyrr í dag um hlutverk skólans og hina skólapólitísku stefnu. Þar höfum við annars vegar samkeppnissjónarmiðin með samræmdu prófin og hinar hörðu greinar og svo hinn félagslega þátt skólans, forvarnahlutverkið. Það hlýtur að vera í þessu samhengi hlutverk skólans að efla einstaklinginn. Það er sú besta forvörn sem til er. Þannig og ekki með neinum öðrum hætti getur samfélagið búið nemendur sína undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi. Það er að efla hann á tilfinningasviðinu ekki síður en hinu vitræna sviði þannig að einstaklingurinn kunni að njóta og geti notið tómstunda. Ég tel einmitt að það sé hið góða í þessari tillögu þannig að í náinni framtíð megum við upp sjá renna daga hins mjúka manns sem leiddur verður að hinni blíðu konu.