Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 15:52:07 (3818)

1997-02-20 15:52:07# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., BirnS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[15:52]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir þá tillögu sem hér liggur fyrir og lýsa yfir stuðningi við hana. Efnislega er ég sammála öllu sem kom fram í máli frummælanda. Þetta er mikið verk sem hér er lagt til að nefndin vinni, að leita orsaka þess að drengir eigi við meiri félagsleg vandamál að etja í grunnskólum en stúlkur og námsárangur þeirra lakari. Ég vona svo sannarlega að nefnd af þessu tagi komist á laggirnar og hún geti skilað okkur niðurstöðum. Ég tel að það væri afar mikilvægt fyrir skólastarfið í landinu að fá svör við einmitt þessum spurningum að svo miklu leyti sem slík svör liggja fyrir eða geta legið fyrir.

Mig langar aðeins að koma að þessu máli út frá sjónarhóli þess sem starfar í grunnskólanum og setja spurningarmerki við það að taka þetta sem kynbundið vandamál. Ég er ekki að hafa á móti því að vandi drengja sé skoðaður sérstaklega. Það er mjög þarft og hefur komið fram í máli hv. þingmanna hér á undan og ég þarf ekki að endurtaka það. En ég vil samt minna á það að þó að stelpurnar séu færri sem eiga við félagsleg vandamál að etja, þá er ekkert sem bendir til þess að vandi þeirra sé minni en drengjanna, kannski meiri vegna þess sem hefur verið bent á að þær hafa sig minna í frammi, þær leita síður eftir aðstoð og þær gleymast frekar. Þess vegna segi ég að við erum kannski svolítið föst í því að segja drengir þetta, stúlkur þetta í staðinn fyrir að líta á þetta sem einn ákveðinn hóp barna, fleiri drengir, færri stúlkur eiga við þessi vandamál að etja og skoðum þann hóp. En ég er samt sem áður mjög hlynnt því að þetta verði gert svona.

Ef ég vík aðeins að kynjaskiptingu í bekkjardeildum sem hefur verið tíðkuð nokkuð í skólum og hefur verið reynd víða og miklu meira rætt kannski heldur en komist hefur í framkvæmd, þá er það svolítið sérstakt að skoða að skipting eftir kynjum virðist koma stúlkunum meira til góða en drengjunum. Það kemur oft upp hjá drengjunum að þeir sakna stelpnanna. Þær hafa ákveðið hlutverk í því að vera málamiðlarar og létta andrúmsloftið þegar það er erfitt, allt þetta sem við þekkjum svo vel frá stúlkunum, og þess vegna verður lífið drengjunum oft auðveldara í blönduðum bekk heldur en hreinum strákabekk. Þessu má ekki gleyma. Við megum heldur ekki gleyma þeim strákum sem eru kannski líkari stelpuhópnum heldur en þorra stráka, þeim sem eru einfaldlega tilbúnir til þess að læra og semja sig að reglum og vilja fá sinn vinnufrið. En allt þetta vildi ég nefna hér.

Mér finnst að örlítið hafi verið látið að því liggja að orsaka vandamálsins sé að leita í skólanum og skólagerðinni og það hefur oft verið sagt að skólinn sé sniðinn fyrir stúlkurnar fremur en drengina og það starf sem þar fari fram hæfi þeim betur. Það má vera, en ég held að við megum ekki gera lítið úr þeim fyrirmyndum sem drengirnir hafa í samfélaginu og utan skólans og hver er ábyrgð feðra. Þetta tengist kannski því sem rætt var fyrr í dag um fjölskylduábyrgð og það að feður virðast oft sleppa ansi létt frá sinni feðraábyrgð og samfélagið og kannski konurnar leyfa þeim það. Börn einstæðra mæðra eru væntanlega ekki föðurlaus þó að þau séu það kannski í reynd þegar til á að taka. Við þurfum að skoða þetta vandamál í mjög víðu samhengi og ekki tengja það eingöngu skólanum.