Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:17:19 (3838)

1997-02-24 15:17:19# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka svör virðulegs forseta en þó ítreka ég seinni spurningu mína. Hún var sú: Hvers virði er það þegar Alþingi samþykkir skýrslubeiðni? Þeirri spurningu er ósvarað. Ber framkvæmdarvaldinu ekki að fara að slíkri samþykkt? Skýrslan er upp á fjórar síður. Það er aðeins um fylgiskjöl að ræða sem eru síðan í febrúar 1996. Það var vissulega fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra að hann hefði ákveðið að bíða eftir samningum aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnutímans. Þeir samningar komu þessari skýrslubeiðni ekkert við öðruvísi en það að ef skýrslan hefði legið fyrir þá hefði verið hugsanlegt að verkalýðshreyfingin hefði getað notað þá skýrslu í þeim samningum vegna þess að við vitum auðvitað að afleiðingar langs vinnutíma í þeim atriðum sem við fórum fram á að yrðu könnuð sérstaklega, þ.e. á kjör launafólks, framleiðni fyrirtækja, slysa- og veikindatíðni og fjölskyldulíf, eru neikvæðar. Það var þess vegna ekki ástæða til þess beint að bíða eftir þessum samningum um samþykkt Evrópusambandsins eða tilskipun. En ég vil engu að síður ítreka spurningu mína til hæstv. forseta: Hvers virði er samþykkt Alþingis þegar beðið er um skýrslu? Ber að fara eftir því eða ekki?