Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:28:33 (3841)

1997-02-24 15:28:33# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:28]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Það blandast engum hugur um að sjávarútvegur er mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Um 4/5 hlutar af gjaldeyristekjunum verða til vegna starfa þeirra sem nýta þessa auðlind og öflugur sjávarútvegur gerir okkur kleift að halda uppi lífskjörum sem eru með því besta sem gerist í heiminum. Það er líka vel kunn staðreynd að sjómannsstarfið er hættulegra flestum öðrum störfum sem sést best á því að slysatíðni meðal sjómanna er verulega hærri en hjá þeim sem starfa í landi. Um og innan við 5% af störfum á vinnumarkaði eru á sjó en milli 15% og 20% af slysum við störf verða þar. Á síðustu sex árum hafa 440--520 sjómenn slasast ár hvert við störf sín. Þessar tvær staðreyndir sem ég hef nefnt þýða að stjórnvöldum ber að leggja mikla áherslu á að auka öryggi sjómanna við störf sín og verja til þess nauðsynlegu fjármagni m.a. til starfa rannsóknarnefndar sjóslysa. Annað er íslenskum stjórnvöldum ekki sæmandi.

[15:30]

Því miður verður ekki sagt að framlög ríkisins endurspegli þetta. Undanfarin þrjú ár hefur fjárveiting ár hvert verið um 7 millj. kr. sem aðeins dugar fyrir nauðsynlegasta rekstri á skrifstofu rannsóknarnefndar sjóslysa en í eiginlegar rannsóknir er ekkert til ráðstöfunar. Dæmi um fjárskort nefndarinnar er að skýrsla hennar fyrir árið 1993 kom út á síðasta ári og enn eru óútkomnar skýrslur fyrir þrjú síðustu ári. Það undirstrikar tómlæti ríkisvaldsins að enn hefur ekki verið sett reglugerð um rannsóknarnefndina þar sem skilgreina á afmarkað verksvið hennar þrátt fyrir að lagaákvæðið sé orðið 11 ára gamalt. Í reglugerðinni á m.a. að kveða á um fræðslustörf í skólum og námskeiðahald. Í maímánuði 1992 upplýsti samgrh. á Alþingi að reglugerðarsmíðin væri á lokastigi í svari við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur. Síðan eru liðin tæp fimm ár og enn ekki komin reglugerðin. Það er ekki ofmælt að rannsóknar- og forvarnastarf á þessu sviði sé hálfgert olnborgabarn í samgrn.

Ég vil leyfa mér að skora á samgrh. að efla þátt rannsókna á sjóslysum og styrkja forvarnastarf í kjölfar þess. Verðugt markmið væri að fækka slysum á sjó um a.m.k. helming á næstu árum og síðan stefna að því að slysatíðni á sjó færist niður í slysatíðni vegna starfa í landi. Ég tel að allar forsendur séu til þess að lyfta grettistaki á skömmum tíma. Vilji er allt sem þarf.

Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er stefna hans og ríkisstjórnarinnar gagnvart rannsóknarnefnd sjóslysa?

Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja að því máli sem í raun er kveikjan að umræðu um öryggismál sjómanna og rannsóknarnefnd sjóslysa, en það er hvers vegna skelfiskbáturinn Æsa sökk á Arnarfirði í blíðskaparveðri fyrir réttum sjö mánuðum. Skipið var talið eitt af stöðugustu skipum hér á landi, vel útbúið og sérhannað fyrir skelfiskveiðar. Engar skýringar liggja fyrir um orsök slyssins og það eina sem hægt er að gera er að færa skipsflakið á grynnra vatn þannig að unnt verði að rannsaka það með köfun eða lyfta því alveg upp sem væri betra. Það hlýtur að vera kappsmál allra aðila að komast að því með nokkurri vissu hver orsökin er að þessu hörmulega slysi. Þá er auk þess nauðsynlegt að færa skipsflakið þar sem það er á fiskislóð og getur reynst sjófarendum hættulegt.

Fyrir liggja áætlanir um að kostnaður við að færa skipið upp á grynnra vatn og síðan rannsóknir með köfun kosti um 8 millj. kr. og einnig að það kosti um 18 millj. kr. að lyfta skipinu upp á yfirborð sjávar. Miðað við þessar upplýsingar er það bæði gerlegt og fjárhagslega viðráðanlegt að lyfta skipinu. Ég tel það ekkert áhorfsmál að ráðast eigi í þetta verk og afla til þess nauðsynlegs fjármagns úr ríkissjóði, enda kveðið á um það í 230. gr. siglingalaga að kostnaður vegna rannsóknar máls skuli greiðast úr ríkissjóði.

Ég verð að láta í ljós nokkur vonbrigði með að ráðherra skuli ekki hafa tekið ákvörðun um þetta sjö mánuðum eftir að slysið varð og tek eftir að formaður rannsóknarnefndar sjóslysa ber við fjárskorti. Má ég minna á að fjárskortur kom ekki í veg fyrir að ráðherra tilkynnti á dögunum um 300 millj. kr. vegaframkvæmd sem ekki er á fjárlögum yfirstandandi árs.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að afla fjár fyrir rannsóknarnefnd sjóslysa til þess að lyfta skipinu af hafsbotni og með því stuðla að rannsókn málsins. Það er löngu kominn tími til þess að ríkisvaldið sýni í verki þá virðingu sem sjómannsstarfið á skilið með því að sinna rannsóknum og forvarnastarfi sem skyldi og ég skora á þingheim og ríkisstjórn að sameinast um að gera bragarbót.