Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:52:07 (3848)

1997-02-24 15:52:07# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:52]

Kristján Pálsson:

Virðulegi forseti. Lög nr. 21/1986 skylda rannsóknanefnd sjóslysa til að upplýsa ástæður eða mögulegar ástæður fyrir þeim og koma til ráðherra. Eins og komið hefur hér fram eru aðeins veittar 7 millj. kr. til slíks og hefur þessi fjárveiting ekki einu sinni dugað til að gefa út bók um sjóslys heldur hefur orðið að leita eftir styrkjum og auglýsingum til þess að hægt sé að koma út bókinni sem er gefin út árlega um sjóslys við Ísland. Afleiðingin er sú að í dag er fjöldinn allur af sjóslysum óupplýstur og menn gista hina votu gröf án þess að nokkuð sé gert í raun til að finna þá eða ástæður viðkomandi slyss. Þetta hefur kostað, eins og flestir Íslendingar þekkja sem eru sjómannaþjóð, mikið sálarstríð aðstandenda þeirra sem farast og liggur slíkur atburður eins og mara á fólki alla ævina.

Í Noregi er í lögum að skylt sé að ná upp skipum ef þess er nokkur kostur. Hér eru engin slík ákvæði í lögum og tel ég að full ástæða sé til þess að slíkt ákvæði væri í lögum og jafnvel í tryggingaskilmálum skipa þannig að skylt væri að tryggja fyrir slíkum kostnaði sem til félli. Þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum á að sýna aðstandendum og minningu drukknaðra sjómanna að allt sé gert sem hægt er til að upplýsa slík mál. Í dag eru fjögur mál óupplýst, sjö ára gömul og yngri, þar sem tíu menn fórust. Í dag er viðurkennt að yfir 100 skip eru á floti sem ættu í raun ekki að vera það.