Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:54:28 (3849)

1997-02-24 15:54:28# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:54]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að bréfið sem við hv. þingmenn fengum frá Kolbrúnu Sverrisdóttur á Ísafirði vakti með mér sterkar tilfinningar en ekki síður margar spurningar, spurningar um réttindi þeirra sem missa ástvini sína af slysförum og hvernig staðið er að réttindamálum þeirra og hvað þar þarf að gera til að bæta úr. En ekki síður vakti það spurningar þess efnis hvernig staðið er að öryggismálum sjómanna, forvarnastarfi í þeim efnum, og um störf rannsóknarnefndar sjóslysa sem gegnir þar auðvitað mjög stóru hlutverki. Það er eðlilegt að í framhaldi af bréfi eins og því sem við fengum þá veltum við því fyrir okkur hvort rannsóknarnefnd sjóslysa sé gert kleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem henni er ætlað. En í lagabreytingu sem samþykkt var á Alþingi og tók gildi 30. apríl 1986 segir að nefndin eigi að kanna orsakir allra sjóslysa er íslensk skip farast.

Nú er það svo með þetta sérstaka slys að það er ógjörningur að kanna hvers vegna skipið fórst nema ná því upp. Ekkert virðist hins vegar benda til þess að af þeirri framkvæmd verði og segir formaður rannsóknarnefndar sjóslysa, Ragnhildur Hjaltadóttir, fyrir stuttu síðan í vitali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

,,Ríkið getur ekki sinnt þessu, enda fjármagn ekki til, auk þess sem slíkt hefði fordæmisgildi.``

Ég tel það fordæmisgildi sjálfsagt. Ég tel að við eigum að búa þannig að fjárveitingum til rannsóknarnefndar sjóslysa að hún geti staðið að þeim verkefnum sem til falla hverju sinni. Þó 7,2 millj. séu nægjanlegar til að standa við hefðbundin verkefni nefndarinnar ár hvert þá eigum við að vera tilbúin til þess að samþykkja aukafjárveitingar til þeirra verkefna sem upp koma.