Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:16:24 (3855)

1997-02-24 16:16:24# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli en jafnframt lýsa áhyggjum yfir þeim upplýsingum sem komu fram í máli málshefjanda. Það er ekki um það að deila að þær aðgerðir, sem hér var ráðist í með ærnum tilkostnaði við að útrýma riðuveiki á ofanverðum 9. áratugnum og fram á þann 10. sem enn stendur, skiluðu miklum árangri. Það er ljóst að þessar aðgerðir lýsa í raun og veru framsýni í ljósi þess sem síðar hefur komið á daginn. Og menn gætu leitt að því hugann aðeins augnablik hvernig staða mála væri hér nú, hefðum við Íslendingar ekki ráðist í þær aðgerðir til að taka á þessu mikla vandamáli sem riðuveikin var, í ljósi atburða sem orðið hafa hér í nálægum löndum og ýmiss konar takmarkana sem innleiddar hafa verið á viðskipti með búvörur frá löndum eða landshlutum þar sem um slíka sjúkdóma er að ræða. En mest um vert er auðvitað að við náum að gera okkar eigin landbúnað heilbrigðari og hagkvæmari og það má undir engum kringumstæðum stofna í nokkra hættu þeim ótvíræða árangri af þeim aðgerðum sem öflugar forvarnir og aðgerðir hafa þó þrátt fyrir allt skilað okkur. Því það er enn sem fyrr svo að íslenskur landbúnaður sleppur einna best af öllum öðrum slíkum hvað varðar ýmsa smitsjúkdóma sem menn eru að glíma við í landbúnaði í nálægum löndum.

Það er sem sagt, herra forseti, krafa mín að menn geri ekkert það sem stofnað geti þessum árangri í hættu. Kæruleysi í þeim efnum er auðvitað fullkomlega ástæðulaust, fullkomlega óþolandi. Ég tek því undir með málshefjanda að það ber að herða reglur varðandi til að mynda flutning á heyi innan lands til að koma í veg fyrir smit í landinu og það er með öllu ástæðulaust að hafa reglur um innflutning á tækjum og búnaði svo kæruleysislegar að þær stofni einhverju í voða í þessum efnum. Ég sé ekki annað en að það sé sjálfgefið að á þeim málum þurfi að taka. Ég hvet hæstv. landbrh. til þess að hnippa í kollega sinn dómsmrh., sem hér var réttilega bent á að fari með anga af því máli, og koma þeim hlutum í lag.