Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:20:58 (3857)

1997-02-24 16:20:58# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:20]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og það sem hér hefur farið fram í umræðum. Það er árangur út af fyrir sig að umræða sem þessi fari hér fram. Menn hafa verið samstiga í aðgerðum varðandi smitsjúkdóma í búfé. Vísindamenn og bændur hafa unnið saman og það er eins og fram hefur komið hér nokkuð sérstakt fyrir Ísland. Í okkar litla samfélagi skilja menn mikilvægið miklu fremur, að verjast smitsjúkdómum og horfa yfir skammtímasjónarmið á heildarhagsmuni. Það muna líka margir eftir hinni bitru reynslu frá innflutningi á karakúlstofni 1933 þegar hingað komu mæði og visna, votamæði og garnaveiki, og svo er reyndar komið á aðra öld frá því riðan barst hingað til lands.

Nú er það svo að fleiri aðilar þurfa að verjast smitsjúkdómunum en áður með innflutningi á lifandi dýrum, dýraafurðum og fóðri eins og fram hefur komið hér og innflutningi notaðra tækja og útbúnaðar. Það þarf strangar og stífar reglur. Þær hafa hingað til haldið sjúkdómum frá. Það er erfiðara um vik þegar við erum bundin af alþjóðasamningum um innflutning. Mikilvægt er að mínum dómi að halda skiptingu landsins í varnarhólf áfram og ég hvet til árvekni í löggjöf og reglum hvað eftirlit varðar. Og eins og ég segi, þótt ekki sé nema umræðan og að vekja máls á þessu er mjög til bóta.