Varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:23:28 (3858)

1997-02-24 16:23:28# 121. lþ. 76.96 fundur 203#B varúðarráðstafanir vegna hættu á smiti búfjársjúkdóma# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:23]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og hv. þm. sem hér hafa tekið þátt í umræðunni fyrir þeirra ágætu innlegg.

Það hefur komið í ljós í þessari umræðu að það eru fleiri en ég sem hafa áhyggjur af þessum málum. Og auðvitað er þetta stóralvarlegt mál ef við missum það úr böndunum sem við erum búin að kosta svo miklu til, að við erum búin að skera niður á kostnað landssjóðs 140 þúsund fjár á undanförnum 10 árum til þess að vinna bug á þessari veiki og árangurinn er mjög góður. Það þarf kannski ekki svo mikið til að raska honum. Það má hreinlega ekki ske að það gerist fyrir eitthvað kæruleysi. Ég verð að segja að mér finnst of mikil áhætta tekin við að veita undanþágu við flutning þurrheys frá riðusvæðum. Það má segja, og liggja fyrir vísindalegar athuganir á því, að það gegni öðru máli með t.d. rúllubaggahey. Ég held að það sé alveg ljóst að það er nauðsynlegt að taka alveg af þann möguleika að flutt verði þurrhey frá riðusvæðum. Þetta eru orðin svo fá svæði í dag og svo vel einangruð, sem betur fer, að það verður að bæta bændum upp þennan skaða á kostnað landssjóðs þannig að þeir komist yfir þessi tvö ár. Þennan biðtíma þarf að bæta þeim upp fjárhagslega þannig að þeir þurfi ekki að vera að taka slíka áhættu. Það sama á auðvitað við með flutning á þökum.

Ég er afskaplega þakklát fyrir þær undirtektir sem þetta erindi hefur fengið og vil ítreka að það er auðvitað mjög brýnt að ekki seinna en í gær verði settar strangar reglur um innflutning notaðra búvéla í ljósi þeirra nýlegu dæma sem maður hefur heyrt um furðulegt eftirlitsleysi á því sviði.