Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:34:07 (3862)

1997-02-24 16:34:07# 121. lþ. 76.14 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:34]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga, um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, sem flutt er á þskj. 641 og er 364. mál þingsins. Á 118. löggjafarþingi 1994--1995 var samþykkt þáltill. um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Þar er ríkisstjórninni falið að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri stofnun eða miðstöð um heimskautamálefni sem kennd verði við Vilhjálm Stefánsson og hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða heimskautasvæðið.

Stofnunin og miðstöðin sem heyrir undir umhvrn. verði að stofni til kostuð af íslenska ríkinu en leiti sem víðast fjárhagsstuðnings við einstök verkefni. Hún skal m.a. annast ráðgjöf um norðurmálefni og eiga samstarf við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Enn fremur verði sett á fót undir forustu umhvrn. föst samvinnunefnd um norðurmálefnin skipuð fulltrúum þeirra innlendu stofnana sem hafa með höndum verkefni er tengjast heimskautarannsóknum. Samvinnunefndin velji auk formanns nefndarinnar, sem umhvrh. skipar án tilnefningar, tvo úr sínum hópi í stjórn þessarar stofnunar eða miðstöðvar.

Í framhaldi af áðurnefndri þingsályktun skipaði ég í september árið 1995 samvinnunefnd um norðurmálefni og er hlutverk hennar ,,að tengja saman og treysta samstarf hlutaðeigandi stofnana sem annast hafa og annast munu rannsóknir á norðurslóðum, svo og tengsl og samstarf um málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar``. Nefndinni var jafnframt falið í samráði við ráðuneytið að vinna að undirbúningi Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og útbúa frv. þar að lútandi. Í nefndinni eiga sæti eftirfarandi:

Ólafur Halldórsson framkvæmdastjóri, sem er formaður, skipaður án tilnefningar, Davíð Egilson forstöðumaður, tilnefndur af Hollustuvernd ríkisins, Jón Gunnar Ottósson forstjóri, tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristján Kristjánsson forstöðumaður, tilnefndur af Rannsóknarráði Íslands, Steingrímur Jónsson útibússtjóri, tilnefndur af Hafrannsóknastofnun, Þorsteinn Gunnarsson rektor, tilnefndur af Háskólanum á Akureyri, Þorsteinn Tómasson forstjóri, tilnefndur af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Þór Jakobsson verkefnisstjóri, tilnefndur af Veðurstofu Íslands, og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, tilnefnd af Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar við gerð frv. var Níels Einarsson mannfræðingur. Aflaði nefndin sér upplýsinga um norðurslóðastofnanir erlendis og norðurslóðarannsóknir hérlendis og tengsl innlendra rannsókna við alþjóðlega rannsóknastarfsemi. Frv. eins og það liggur fyrir er að meginefni til í samræmi við tillögur samvinnunefndarinnar frá því í ágúst sl., eins og hún lagði þær fyrir ráðuneytið og ráðherra. Nefndin vann síðan að lokafrágangi frv. í samráði við ráðuneytið þannig að um frv. eins og það liggur fyrir er samkomulag þessara aðila.

Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að á síðustu árum hafi mannlíf og náttúra á norðurslóðum átt undir högg að sækja. Eðli þeirra vandamála sem við er að etja sé slíkt að þau verði ekki leyst nema með því sem menn kalla þverfaglegu og fjölþjóðlegu samstarfi. Þessi vandamál eru bæði af vistrænum og félagslegum toga, oft á tíðum flókin og falla undir fleiri en eina vísindagrein. Á tiltölulega skömmum tíma hafa þær þjóðir sem byggja heimskautaslóðir þurft að aðlagast gjörbreyttum aðstæðum þegar veiðimannasamfélögin hafa tekið upp aðra menningu og lifnaðarhætti. Þetta hefur á stundum leitt til alvarlegra þjóðfélagsvandamála en einnig til aukinnar vitundar hlutaðeigandi um nauðsynlega þátttöku í alþjóðasamstarfi. Að leiðarljósi hafa menn að sjálfsögðu réttinn til eigin menningar, eigin lands og að fá að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt í samræmi við eigin þarfir og gildismat.

Enn er norðurheimskautssvæðið tiltölulega lítið spillt af mannavöldum þó á því hafi orðið verulegar breytingar að undanförnu með aukinni mengun sem berst oft langar leiðir. Hnattrænar veðurfarsbreytingar auka enn á þann vanda sem blasir við og auk þess er ofnýting náttúruauðlinda og álag á vistkerfi heimskautasvæða verulegt áhyggjuefni. Allar geta þessar breytingar til lengri tíma litið stofnað mannlífi og náttúru í hættu en hér er vitanlega um að ræða breytingar að langmestu leyti af mannavöldum. Mikilvægasti þátturinn er að nýta náttúruna eins og hún er og reyna ekki að velja úr einstaka þætti eða einstakar auðlindir og er það í samræmi við lífsviðhorf og boðskap Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar og í samræmi við sjálfbæra þróun náttúruauðlinda.

Hagsmunir okkar Íslendinga felast ekki síst í því að vinna gegn umhverfismengun og rányrkju auðlinda og möguleikar okkar sem smáþjóðar eru fyrst og fremst fólgnir í því að hafa áhrif á alþjóðavettvangi með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi, ekki síst um þau mál er varða okkur miklu og þar getum við bæði miðlað af reynslu okkar og þekkingu. Íslendingar hafa verið virkir þátttakendur í samstarfi er snertir norðurslóðir og margar stofnanir hér á landi hafa tekið þátt í því.

Íslendingar hafa verið aðilar að Rovaniemi-samstarfi norðurskautsríkjanna átta, Bandaríkjanna, Danmerkur f.h. Grænlands, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, frá 1989 og samþykktu umhverfisáætlun þess, AEPS (Arctic Environmental Protection Strategy), árið 1991. AEPS gerir ráð fyrir víðtækri samvinnu norðurskautsríkjanna um vöktun og rannsóknir á lífríki og umhverfi norðurslóða í samvinnu við heimamenn. Verksvið AEPS greinist í fjóra meginþætti.

Einn af þeim er CAFF -- Conservation of Arctic Flora and Fauna. En sú skrifstofa er sem kunnugt er starfrækt hér á landi, þ.e. á Akureyri.

Ég vil enn fremur benda á nýstofnað norðurskautsráð, Arctic Council, sem mun beita sér sérstaklega í sameiginlegum hagsmunamálum sem varða sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda, umhverfismál og félagsleg málefni frumbyggja og annarra sem búa á norðurslóðum. Norðurlöndin lögðu mikla áherslu á stofnun þessa ráðs sem í taka þátt þau átta þjóðlönd sem ég nefndi áðan.

Það er einkar mikilvægt að Íslendingar geti lagt sitt af mörkum til þessa mikilvæga málaflokks og er samvinna Norðurlanda um málefni norðurskautsins dæmi um stóraukna fjölþjóðlega og þverfaglega samvinnu á norðurslóðum. Því er mjög brýnt að íslensk stofnun taki að sér að hafa yfirsýn og hvetji til verkefna í anda þeirrar þróunar sem á sér stað í hliðstæðum stofnunum í nágrannalöndunum. Það er einmitt ætlunin að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hafi það hlutverk með höndum hér á landi, á Akureyri, en þessu hlutverki sinnir engin einstök stofnun í dag. Margar stofnanir starfa að þessum málum og hafa með höndum rannsóknir og aðra starfsemi er tengist norðurslóðum.

Hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sem verður ríkisstofnun undir yfirstjórn umhvrh. er þannig ætlað að vera samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða á Íslandi, efla umhverfisrannsóknir og stuðla að sjálfbærri þróun og styrkja þátttöku Íslendinga í samstarfi á því sviði.

Hér er ekki verið að setja á fót stofnun sem ætlað er að taka verkefni af öðrum stofnunum heldur að vera samstarfsvettvangur þeirra um þessi fyrrgreindu viðfangsefni. Stofnuninni er ætlað að vinna að þessum markmiðum með því að safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða, stuðla að því að umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gera tillögur um forgangsröðun þeirra og miðla fræðslu um málefni norðurslóða til skóla og almennings, vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun, annast samstarf við sambærilegar stofnanir erlendis t.d. um rekstur fjölþjóðlegra verkefna, skapa aðstöðu fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknastörf á fræðasviði stofnunarinnar sem og að sinna öðrum verkefnum eftir því sem ákveðið verður.

Ástæðan fyrir nafni stofnunarinnar, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, er fyrst og fremst órofa tengsl norðurslóða við nafn hans sem í fimm ár óslitið eða frá 1913--1918 ferðaðist um norðurslóðir og stundaði mannfræðirannsóknir og landkönnun á heimskautasvæðum í Kanada þar sem hann dvaldi reyndar í tólf ár. Vilhjálmur Stefánsson var boðberi þess að Evrópubúar gætu búið á norðurslóðum líkt og Inúítar, lifað á heimskautaslóðum og nýtt sér gæði þeirra að því tilskildu að þeir lærðu að umgangast náttúruöflin að hætti heimamanna. Vilhjálmur var fjölhæfur fræðimaður og það er því einkar vel til fallið að kenna stofnunina við nafn hans þegar hlutverk hennar er haft í huga.

Gert er ráð fyrir að yfir stofnuninni sé sérstök stjórn skipuð þremur aðilum til fjögurra ára í senn og að í stjórn stofnunarinnar eigi sæti formaður samvinnunefndar um málefni norðurslóða sem enn fremur er kveðið á um að skuli starfa samkvæmt lögunum. Skal hann vera formaður stjórnarinnar. En hinir tveir skulu tilnefndir af samvinnunefndinni en þurfa ekki að eiga sæti í henni. Gert er ráð fyrir að umhvrh. skipi forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Gerðar eru kröfur um menntun hans sem tengist fræðasviði stofnunarinnar.

Eins og áður er sagt skipar umhvrh. samvinnunefnd um málefni norðurslóða til fjögurra ára í senn. Í samvinnunefndinni skulu eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum sem hafa undir höndum verkefni er tengjast norðurslóðarannsóknum. Athygli mín hefur verið vakin á því að í 5. gr. frv., þar sem fjallað er um samvinnunefndina, kunni að vera prentvilla sem megi þá lagfæra, eða að öðrum kosti mál sem umhvn. þarf að taka til skoðunar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um málefni norðurslóða til fjögurra ára í senn. Í stjórninni skulu eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum sem hafa með höndum verkefni er tengjast norðurslóðarannsóknum.``

Í staðinn fyrir ,,stjórninni`` er auðvitað átt við samvinnunefndina sjálfa, þ.e.: Í samvinnunefndinni um málefni norðurslóða skulu eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum o.s.frv. Þetta vil ég nefna hér í framhjáhlaupi, hæstv. forseti.

Gert er ráð fyrir að umhvrh. skipi formann nefndarinnar án tilnefningar. Það yrði fyrst og fremst hlutverk samvinnunefndar um norðurmálefni að leitast við að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og um málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Ekki er gert ráð fyrir að um stóra stofnun sé að ræða enda vart þörf á slíku. Ekki er heldur gert ráð fyrir að verkefni stofnunarinnar verði mjög viðamikil í upphafi þótt vissulega horfi ég fram á aukin verkefni þegar fram líða stundir og eftir því sem ný verkefni kunna að berast á borð stofnunarinnar og stjórnar hennar sem talin eru geta heyrt undir verksvið hennar.

[16:45]

Gert er ráð fyrir að í fyrstu verði starfsmenn stofnunarinnar forstöðumaður og einn sérfræðingur auk skrifstofufólks og húsrými verði um 80 m² og er reyndar gert ráð fyrir því í sameiginlegu húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands, veiðistjóra, CAFF-skrifstofunnar og Náttúrugripasafnsins á Akureyri, þ.e. gert hefur verið ráð fyrir því að ef og þegar þetta frv. hefur verið lögfest og stofnunin getur tekið til starfa þá sé fyrir hendi húsnæði sem mögulegt væri að vista stofnunina í. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er reynt að halda kostnaði í lágmarki enda sætir undantekningum hin síðari ár að stofna til nýs reksturs á vegum ríkisins. Tíminn mun leiða í ljós hvernig starfseminni vex fiskur um hrygg en eitt er víst að hér er um málefni að ræða sem mun taka meira rúm á vegum stjórnvalda á komandi árum en verið hefur.

Hæstv. forseti. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir þau sjónarmið sem liggja til grundvallar frv. til laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og einstök ákvæði frv. og hvernig að því hefur verið staðið. Að öðru leyti vísa ég til grg. og athugasemda við frv. Rétt er að ítreka að frv. er samið og lagt fram til að fylgja eftir ályktun Alþingis. En það er einnig rétt að geta þess að sem stendur er á vegum stjórnskipaðrar nefndar unnið að endurskoðun laga er varða náttúrfræðistarfsemi og undir umhvrn. falla. Er það verk vel á veg komið og reikna ég með að nefnd sú skili til mín frv. í næsta mánuði. Ekki er óeðlilegt að litið verði á þessi mál öll saman ekki síst í tengslum við hugsanlegan samruna náttúrufræðistofnana sem nú þegar starfa á Akureyri.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhvn. um leið og ég læt í ljós þá ósk mína að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi. Ég veit þó að umhvn. er með stór mál í vinnslu sem ég hef lagt mikla áherslu á að næðu fram að ganga á þessu þingi, þ.e. frv. um byggingar- og skipulagslög og ég veit að þar er unnið að því máli. Ég hef sagt að það yrði að vera og ætti að vera forgangsverkefni en vonast til að fleira kunni að vinnast í nefndinni og þetta frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi og að starfsemin geti tekið til starfa eigi síðar en frá og með næstu áramótum.