Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 16:47:33 (3863)

1997-02-24 16:47:33# 121. lþ. 76.14 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[16:47]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frv. til laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er komið fram og er til 1. umr. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með frv. og athugasemdir eða grg. með frv. sem mér finnst gera mjög vel grein fyrir hvert hlutverk þessarar stofnunar er. Það er aðeins eitt atriði sem mér finnst að þurfi að koma fram við 1. umr. af minni hálfu og tengist það bæði frv. í heild en einnig 4. gr. frv. Það er greinilegt að frv. og grg. bera það með sér að verksvið Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar verður einkum á sviði hinna ýmsu greina náttúrvísinda og þetta gildir að sjálfsögðu um tilurð frv. og skipan nefndarinnar, eins og hún er samsett, og er ekki nema fyllilega eðlilegt í sjálfu sér. Þetta er skiljanlegt þar sem vistkerfi norðursins er mjög viðkvæmt fyrir umhverfisbreytingum og rannsóknarefni á sviði náttúruvísinda og samræming þessara rannsóknarverkefna og forgangsröðun er því mjög verðugt viðfangsefni stofnunarinnar.

Hins vegar vil ég leyfa mér að leggja það fram til athugunar að viðfangsefni stofnunarinnar ná í raun, ef vel er skoðað, langt út fyrir hefðbundið svið náttúruvísinda. Það er ekki síst ljóst þegar sú staðreynd er skoðuð að á norðurslóðum eru þau tiltölulega fáu nútímasamfélög sem lifa á því að nýta villta dýrastofna. Það eru ekki mörg samfélög í heiminum, allra síst háþróuð samfélög sem lifa á því að talsverðu leyti eða byggja efnahag sinn að verulegu leyti á því að nýta villta dýrastofna. Það má kannski segja að hér á norðurslóðum byggi Íslendingar og Færeyingar sína afkomu að mjög verulegu leyti á þessu en einnig eru nokkur héruð í Norður-Noregi, Rússlandi og Kanada ásamt Grænlendingum að sjálfsögðu sem byggja afkomu sína að talsverðu leyti á nýtingu villtra dýrastofna. Þar sem nýting villtra dýrastofna kallar á afar varfærna meðferð á náttúruauðlindum og krefst þess að slík samfélög virði lögmálið um sjálfbæra nýtingu þessara stofna, þá má segja að rannsóknarverkefni, samræmingarverkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar nái einnig til nýtingarinnar og í raun og veru þess samfélags sem byggir starfsemi sína á nýtingunni. Það er því verðugt verkefni að samræma, forgangsraða og efla rannsóknir á samfélögum sem byggja efnahag sinn í miklum mæli á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Þetta hefur ekki einungis gildi að því er varðar nýtingu náttúruauðlindanna sjálfra heldur hefur þetta líka gildi að því leyti að efla þarf skilning annarra þjóða á lífsstíl og lífshagsmunum þeirra þjóða sem lifa á nýtingu náttúrulegra villtra dýrastofna. Ég held að í dag sé þverrandi skilningur annarra þjóða á slíkum lífsstíl, hann fari minnkandi og það er afar mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að koma á framfæri upplýsingum um lífsstíl þjóðar eins og Íslendinga og lífshagsmuni sem eru svona háðir nýtingu náttúrulegra auðlinda. Að þessu leyti er kannski óhætt að fullyrða að verkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar gæti þess vegna náð nokkuð út fyrir svið náttúruvísindanna, gæti t.d. snert mannfræði og fer nú vel á því, þar sem sá maður sem stofnunin er kennd við var mannfræðingur. Mér er sagt að það sé ekki mikill munur á því sem Bandaríkjamenn kalla mannfræðinga og fornleifafræðinga, þau svið tengist nokkuð mikið. Ég tel að þessi stofnun gæti einnig gegnt því hlutverki að samræma rannsóknir á sviði mannfræði og fornleifafræði svo og hagfræði, því allar þessar greinar koma nokkuð að því verkefni að skýra út fyrir öðrum þjóðum í hvers konar samfélagi við höfum lifað öldum saman og í hvers konar samfélagi við lifum í dag og í hvers konar sjálfbæru nýtingarsamfélagi við ætlum okkur að lifa í framtíðinni. Ég vildi benda á þetta í og með til að vekja athygli á því sem segir í 4. gr. að forstöðumaður stofnunarinnar skuli hafa lokið framhaldsnámi og stundað rannsóknir sem tengjast fræðasviði stofnunarinnar. Ég skil það svo að þetta fræðasvið sé þá allrúmt.