Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 18:00:21 (3872)

1997-02-24 18:00:21# 121. lþ. 76.15 fundur 266. mál: #A vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (veiðar jarðeiganda) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[18:00]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst vera farið að vekja hér upp drauga af tiltölulega litlu tilefni með þessum málflutningi. Ekki er ég á móti því að á málið sé litið af þingnefnd en þá er auðvitað sjálfsagt að sú þingnefnd sem um málið fjallaði og málið heyrir undir, umhvn. þingsins, fjalli um það, þó auðvitað geti komið til greina að víkja frá þeirri meginreglu í einhverjum tilvikum. En það er dálítið sérkennilegt ef menn hafa einhverja sérstaka trú á því að landbn. þingsins sé líklegri til stuðnings við það en t.d. umhvn. Ég er ekki viss um að sjónarmið manna fari eftir því hvar þeir sitja í nefndum. Ég hef ekki orðið var við það í þinginu að það skipti sköpum.

Ég vil aðeins segja að lokum að ég held að hagsmunum landeigenda og landnytjenda sé ekki greiði gerður með því að fara að gera þá undanþágu sem hér er lögð til. Ég held einmitt að það fyrirkomulag sem var lögfest með veiðikortum þjóni hagsmunum heildarinnar, ekki síst þeim sem ráða yfir landi og fá þær upplýsingar á skýran hátt sem berast með skýrslum, byggðum á veiðikortum, þó vissulega sé gert ráð fyrir að þeirri skipan sé áfram haldið samkvæmt frv.