Náttúruvernd

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 18:56:13 (3880)

1997-02-24 18:56:13# 121. lþ. 76.16 fundur 276. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., 277. mál: #A námulög# (náttúruvernd) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[18:56]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hlýddi af athygli á það sem hæstv. umhvrh. sagði um málið og þakka honum fyrir að tjá sig um það í þinginu. Ég tel það þýðingarmikið og virðingarvott við okkur, sem erum að basla í stjórnarandstöðunni við tillögugerð af ýmsum toga, að ráðherrar taki þátt í umræðum um mál og þarf ekkert undan því að kvarta af hálfu núv. hæstv. umhvrh. hvorki í þessu máli né áður.

Það eru aðeins örfá atriði, virðulegur forseti, er varða málsmeðferð sem ég vildi koma á framfæri og beini einkum til hæstv. ráðherra. Sá málaflokkur sem við erum að fjalla um hér, þó hann varði kannski ein stærstu pólitísku mál okkar tíma ef allt er saman lagt, á eftir að vaxa að þýðingu eftir því sem árin líða. Um það hygg ég að lítill ágreiningur sé hjá þeim sem hafa sett sig inn í stöðu mála að því er snertir umhverfi okkar. Með hliðsjón af því ætti út af fyrir sig ekki að þurfa að ríkja flokkspólitískur stórágreiningur um einstaka þætti þó að mér sé ljóst að um aðra geti verið verulegur ágreiningur en ætla ekki að fara að nefna þá í tengslum við þetta mál.

Með vísan til þessa fyndist mér skynsamlegt, ég held að ég mundi setja mig í þær stellingar ef ég væri í sporum núv. hæstv. umhvrh., að grípa mál af þessum toga, sjá hvort þar væri efni sem væri bitastætt og væri til bóta að greiða götu í gegnum þingið og lögleiða með breytingum eftir atvikum til að fá þær tryggingar sem af slíkum lagabótum leiða frekar en að fara út í óvissuna að því er varðar að ná landi í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra segir að hann geri ráð fyrir að nefndin, sem er að endurskoða náttúruverndarlöggjöfina í heild sinni, ljúki störfum í lok ársins 1997. Unnt verði að sýna frv. um breytingu á þeirri löggjöf á vorþingi 1998 og ef ég man rétt er ekki meira en ár í þingkosningar, á árinu 1999. Þingið veturinn 1998--1999 verður samkvæmt lögum og stjórnarskrá mjög stutt þing. Ég hef ekki alveg skoðað dagsetningu kosninga en þær liggja fyrr á vetrinum en verið hefur eðli málsins samkvæmt þar sem kjörtímabilið má ekki fara yfir fjögur ár. Þess vegna er það í raun alltaf að styttast og spurning hvort það lendir inn á marsmánuði þegar gengið verður til kosninga 1999. Mér sýnist því að mjög þröngt geti orðið þar um og oft er ekki það andrúmsloft á slíkum þingum að það sé fallið til þess að koma í gegn vönduðum lagabreytingum í stórum bálkum.

Ég var þeirrar skoðunar í sambandi við breytingar á lögum um náttúruvernd á liðnum þingum að þar hefðu menn átt að taka meira á í þeim efnum, reyna að endurskoða lögin í heild en ekki takmarka sig við aðeins hluta. Meðal annars af þessum ástæðum og vegna þess að ég, ásamt öðrum hv. flm., taldi að brýnt væri að ná fram lagabótum í því efni var lagt í þá vinnu sem liggur að baki frv. og tillögugerðinni.

Ég vildi mælast til þess, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. athugi það í fullri vinsemd og af raunsæi hvort ekki væri rétt að skoða málið með tilliti til þess að fram fari efnisleg skoðun á því, hugsanlega með þátttöku þeirrar nefndar sem nú er að störfum þannig að henni gefist færi á að gefa ábendingar um það sem sú nefnd teldi að betur megi fara, geti komið því á framfæri við umhvn. þingsins þannig að þar væri hægt að taka á málinu efnislega og taka afstöðu til þess.

Ég mæli þetta hér af því að ég tel að málið sé brýnt og um það er ekki ágreiningur, ég held ekki við nokkurn mann í rauninni sem ann landinu og það eru sem betur fer flestir Íslendingar sem hafa ríka tilfinningu fyrir því. Það á ekkert skylt við einhvern metnað okkar flm. þessa máls að svo er mælt heldur einfaldlega að þannig gætu menn kannski unnið tíma, stigið farsæl skref til lagabóta frekar en tefla á þá óvissu sem liggur í tímans rás.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Hér er eftir að mæla fyrir málum á þessum fundi og þegar er nokkuð áliðið dags.