Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:43:53 (3886)

1997-02-24 19:43:53# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:43]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta nema ég er eiginlega undrandi á því að jafnmikill og röskur talsmaður gegn stóriðju, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, skuli reyna að snúa málinu og gera það með einhvern veginn torkennilegt í meðförum Framsfl. Á milli okkar flm. og hæstv. umhvrh. er fullt samkomulag um þetta. Það er ekki ágreiningur. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan að ég tel þetta vera spurningu um aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Hér er um þáltill. að ræða og það er eðlilegt að þingið taki afstöðu til mála af þessum toga og færi það síðan til framkvæmdarvaldsins sé það vilji þingsins. Þess vegna fannst mér það sem hv. þm. ýjaði að hér áðan í rauninni ekki eiga við rök að styðjast og alls ekki vera við hæfi.

Það sem er meginmálið er að við erum sammála um meginmarkmiðið og meginefnið og um það eigum við að ræða og styðja og snúa bökum saman í því.