Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:45:14 (3887)

1997-02-24 19:45:14# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða eða spá í innanhússmál Framsóknarþingflokksins í þessu máli frekar en orðið er. Það verður bara að koma í ljós hvernig málin ráðast og hvort núv. hæstv. umhvrh. tekur myndarlega við þeim bolta sem umhvn. þingsins sendir vonandi þangað, kannski svolítið stærri bolta en hér liggur fyrir.

Varðandi tillöguna um vetnið þá finnst mér of lítið kjöt á þeim beinum og vildi gjarnan sjá að þar yrði við aukið ef þingið fær að álykta um málið sem ég vil gjarnan að verði. Nú reynir á það og ég vísa m.a. til þeirrar þingsályktunar sem verðskuldaði það kringum 1990 á 113. þingi að fá brautargengi, að vissir þættir sem þar eru nefndir mættu gjarnan koma inn í ályktun um þetta mál og er, eins og ég hef þegar greint frá, reiðubúinn til að láta mitt lóð á vogarskál innan umhvn. til að þetta megi ganga fram og þessi tillaga fái afgreiðslu fyrir þinglok því að málið er gott og enginn ágreiningur um það okkar á milli og í rauninni mál sem hefur legið allt of lengi hjá garði.