Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 13:50:42 (3892)

1997-02-25 13:50:42# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[13:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir að óska eftir þessum umræðum um greinargerð sem ég fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að taka saman um tengsl menntunar, mannauðs og hagvaxtar. Meginniðurstaða greinargerðar Hagfræðistofnunar er að skýr tengsl séu á milli hagvaxtar og menntunar. Líkur eru á að 1% hækkun á meðalskólagöngu vinnuafls leiði til 0,3% hagvaxtar á tilteknu ári að öðru óbreyttu.

Í greinargerðinni eru raktar leiðir sem Hagfræðistofnun telur að stjórnvöld geti farið til að bæta menntunina og auka hagvöxtinn. Ég óskaði eftir umræddri greinargerð til að stuðla að málefnalegum umræðum í þjóðfélaginu um þessa þætti og þá sérstaklega hvað megi bæta í menntakerfinu til að hagvöxtur aukist. Það er miður að hv. þm. skuli ekki minnast á þessa meginniðurstöðu Hagfræðistofnunar heldur einungis leggja áherslu á þá þætti sem neikvæðir eru þegar rætt er um menntun og gildi hennar. Tel ég að þessi áhersla hv. þm. sé ekki til þess fallin að hvetja ungt fólk til framhaldsnáms.

Greinargerðin hefur verið lögð fyrir ríkisstjórn til kynningar. Nú þegar og áður en greinargerðin var lögð fram hafa verið teknar ákvarðanir sem styrkja munu Lánasjóð ísl. námsmanna. Við afgreiðslu fjárlaga ársins 1997 var t.d. ákveðið að auka framlög til sjóðsins um 100 millj. kr. Á næstunni verður lagt fram frv. til laga um breyting á lögum um LÍN þar sem m.a. er kveðið á um lækkun á endurgreiðslubyrði námsmanna.

Við úthlutun úr lánasjóðnum er tekið tillit til ýmissa félagslegra aðstæðna námsmanna og aukin fjárveiting til sjóðsins mun að hluta til stuðla að meiri félagslegri jöfnun námsmanna. Hagfræðistofnun leggur hins vegar áherslu á að hvetja eigi nemendur til dáða með umbunarkerfi. Í því gæti t.d. falist að þeir nemendur sem standa sig vel í námi njóti meiri styrkja frá ríkinu en aðrir.

Þegar ég kynnti greinargerð Hagfræðistofnunar opinberlega óttaðist ég að hin málefnalega umræða sem ég var að vonast eftir gæti týnst í umræðum um kjaramál sem yfirleitt einkennast af hagsmunum ákveðinna stétta og heildarmyndin týnist. Það virðist ætla að verða reyndin hér í dag ef marka má orð hv. þm. sem hóf þessa umræðu. Talsmenn launþega hafa undanfarna mánuði lagt mesta áherslu á að lægstu taxtar hækki og launabilið í landinu minnki. Mér virðist sú krafa ekki vera í samræmi við óskir BHM um að laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hækki um 42,5% líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu bandalagsins um ævitekjur og arðsemi menntunar. Ég er hins vegar ekki í þeirri aðstöðu að svara fyrir hönd samninganefndar ríkisins en hún kemur fram fyrir hönd ríkisvaldsins og svarar kröfugerðum samningsaðila ríkisins.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur hins vegar fram að launabilið milli menntaðra og ómenntaðra einstaklinga hafi mjókkað hér á landi síðustu áratugi og Hagfræðistofnun bendir á að til að arðsemi menntunar á Íslandi verði jákvæð þurfi annaðhvort að styrkja nemendur í námi mun meira en nú er gert eða meta menntun meira í launum og stofnunin segir að sennilega sé breytt tekjuskipting vænlegri þar sem frekari styrkir en nú eru komi hinum efnameiri frekar til góða en hinum efnaminni.

Staðreyndin er sú að auknu fjármagni hefur verið varið til menntakerfisins undanfarin ár. Þegar bornar eru saman fjárveitingar á milli áranna 1996 og 1997 er aukningin liðlega 170 millj. kr. Í þeim samanburði er grunnskólanum hins vegar sleppt vegna flutnings hans til sveitarfélaganna en töluvert meira fé er varið til grunnskólastarfs núna heldur en á síðasta ári. Jafnframt kemur það fram í greinargerð Hagfræðistofnunar að útgjöld á ársverk í rannsóknum og þróun hafa tvöfaldast á tímabilinu 1971--1993 og útgjöld á hvern Íslending tæplega fjórfaldast. Þetta er umtalsverður árangur en vissulega má gera betur og að því er stefnt.

Mörg mikilvæg verkefni eru í gangi í menntmrn. og má þar t.d. nefna umfangsmikla endurskoðun á námskrám grunnskóla og framhaldsskóla en námskráin leggur grunninn að skólastarfi í landinu. Í greinargerð Hagfræðistofnunar eru lagðar fram mjög athyglisverðar tillögur sem flestar eru í samræmi við þá menntastefnu sem ég hef fylgt. Að þeim verður hugað með bætta menntun að leiðarljósi.